Steinunn Ása Sigurðardóttir, sem gagnrýndi í gær málflutning Reynis Bergmann um að það eina sem hann girnist ekki kynferðislega séu rauðhærðir feministar sem eru vegan, er sorgmædd yfir því hversu marga viðhlæjendur áhrifavaldurinn virðist hafa í íslensku samfélagi.
Áhrifavaldurinn Reynir mætti í hlaðvarpsþáttinn 12:00 sem nemendur Verzlunarskólans sjá um. Þar var hann spurður af umsjónarmönnum þáttarins hvað það væri sem honum fyndist eiga að vera utan seilingar. Þar lét hann ummæli falla um femínista, nánar tiltekið „vegan rauðhærða femínista“, sem hafa verið harðlega gagnrýnd. „Ef það væri eitthvað sem ég myndi ekki gera þá væri það rauðhærður vegan femínisti, hann myndi ekki fá liminn minn,“ var meðal þess sem Reynir sagði.
Steinunn er ein þeirra fjölmörgu sem gagnrýndu orð Reynis, meðal annars að það væri viðbjóðslegt að tæplega fertugur karlmaður væri að tjá sig um að eiga kynmök við menntskólastelpur. Hún gaf lítið fyrir afsökunarbeiðni Reynis þar sem hann kvartaði yfir því að ekkert mætti segja lengur því fólk væri orðið svo ofboðslega viðkvæmt. Því að þegar hún vogaði sér að gagnrýna fullyrðingar Reynis í viðtalinu rauk hann sjálfur til og hótaði henni málsókn.
Þau hafa nú hins vegar sæst eftir gott samtal í gærkvöldi en henni finnst engu að síður mikilvægt að umræðan sé tekin. „Þetta er algjörlega óásættanlegt og þessi ummæli eru auðvitað bara vandræðaleg fyrir hann. Ég hélt að þau dæmdu sig bara sjálf en samt er bara fullt af fólki sem finnst þetta fyndið og ekkert að þessu. Að viðhlæjendurnir séu þetta margir er sorglegt og mér finnst það svo sorglegt að við séum ekki komin lengra þetta,“ segir Steinunn.
Fyrir utan hvað það er viðbjóðslegt að 39 ára karlmaður sé að tjá sig um að ríða menntaskólstelpum
— Steinunn Ása (@SteinunnAsa) November 23, 2020