Kate Middleton, hertogynjan af Cambridge, og Vilhjálmur prins eignuðust sitt þriðja barn, lítinn snáða, á St Mary’s-sjúkrahúsinu í London í gærmorgun.
Kate og Vilhjálmur yfirgáfu sjúkrahúsið síðdegis í gær og frumsýndu um leið nýjustu viðbótina við konunglegu fjölskylduna.
Kate ljómaði er hún heilsaði blaðamönnum, ljósmyndurum og aðdáendum fyrir utan sjúkrahúsið og klæddist eldrauðum kjól frá Jenny Packham með hvítum blúndukraga. Við hann var hún í ljósum skóm frá Gianvito Rossi. Hár og förðun hennar var óaðfinnanleg, þökk sé stílista hennar Natasha Archer sem var að sjálfsögðu á staðnum.
Margir hafa bent á að Kate hafi verið sláandi lík Díönu prinsessu í fatavali, en prinsessan heitin klæddist rauðri dragt þegar hún gekk út af fæðingardeildinni með Harry prins árið 1984.
Þess má geta að Kate klæddist líka kjól úr smiðju Jenny Packham þegar hún frumsýndi hin tvö börnin sín; Georg prins árið 2013 og Charlotte prinsessu árið 2015. Þeir voru hins vegar báðir ljósir, en í þetta sinn ákvað hún að kynna heiminn fyrir nýjasta prinsinum í sterkum lit sem tekið er eftir.