Gylfi Páll Hersir jarðeðlisfræðingur minnist knattspyrnusnillingsins Diego Maradona með upprifjun á því þegar leiðir þeirra lágu saman. Hann segir að knattspyrnumanninum hafi verið fyrirgefnir allir misbrestirnir í lífinu.
Gylfi ritar um knattspyrnugoðið í færslu á Facebook. „Þá er Maradona fallinn frá, sá mikli snillingur. Hann ólst upp í mikilli fátækt í Buenos Aires og varð besti leikmaður sögunnar að margra mati, þrátt fyrir að vera fáránlega einfættur og kunna ekki að skalla. Þá var á þessum árum leyfð ótrúleg harka og hann óspart sparkaður niður. Honum fylgdi hjörð vina og vandamanna sem hann hélt uppi meðan á atvinnumennskunni stóð. Honum voru fyrirgefnir allir/flestir misbrestirnir í lífinu sem fylgja svona skjótum frama – í Argentínu er hann sem heilagur maður. Það má að mörgu leyti rekja til uppruna hans,“ segir Gylfi.
Gylfi hitti þennan ótrúlega íþróttamanna á ferðalagi. „Hann studdi byltinguna á Kúbu og var mikill aðdáandi Che Guevara. Þegar líkaminn var kominn í algjört rugl leitaði hann ósjaldan til Kúbu til lækninga og spjallaði löngum stundum við Fídel Castro í leiðinni. Ég rakst raunar einu sinni á kappann. Vorum á leiðinni frá Buenos Aires til Madrid eftir að hafa heimsótt afkvæmið. Í flugvélinni var argentíska landsliðið með Maradona þáverandi þjálfara liðsins innanborðs. Þarna fór ósköp venjulegur maður, laus við alla stjörnustæla – lágvaxinn en ansi hnöttóttur. Við vorum svo samferða í rútunni og upp rúllustigann á flugvellinum í Madrid, og síðan í gegnum vegabréfskoðunina. Ég leyfði Maradona að vera á undan mér og sá að vökul augu þess sem vegabréfið skoðaði taka smá kipp. Á þessum árum var „selfie“ óþekkt!,“ segir Gylfi og bætir við:
„Var í Napolí fyrir löngu síðan. Spurði þjónninn á hótelinu um Maradona en þá var neysla kappans umtöluð. Þjónninn ungi svaraði alvarlegur í bragði og ekki laust við að hann táraðist. „Afi minn fór á völlinn að sjá Napolí tapa árum saman, svo kom Maradona og Napolí eignaðist alvöru fótboltalið og afi minn dó glaður maður. For that I am forever grateful to mister Maradona. Mér er alveg sama hvað um hann er sagt að öðru leyti.“