Maðurinn sem lést nærri Selfoss í gærkvöldi hét Einar Hallsson. Hann var hrossabóndi að Hólum og fyrrverandi útgerðarstjóri. Einar lætur eftir sig tvö uppkomin börn.
Einar fæddist á Norðfirði árið 1954 og var því 66 ára gamall. Einar lést eftir að grafa hans festist í vatni úti í mýri í grennd við Selfoss. Hann náði að kalla eftir aðstoð og voru viðbragðsaðilar kallaðir til á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Mikið hafði dregið af Einari þegar hjálpin barst og missti hann fljótlega meðvitund. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn við komuna á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í gærkvöld. Líklegt er talið að um ofkælingu hafi verið að ræða.
Lögreglan á Suðurlandi er með málið til rannsóknar. Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn er yfir rannsókninni. Aðspurður segir hann dánarorsök enn óljósa og unnið að rannsókn.