Laugardagur 11. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Það er komið að því

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Biðinni löngu lýkur senn. HM 2018 í knattspyrnu hófst formlega í gær í Rússlandi en hjá Íslendingum byrjar mótið í raun á morgun þegar landsliðið tekur á móti Argentínu í fyrsta leik í D-riðli.

Hvernig spilast leikurinn, hvaða þýðingu hefur hann og hvar er ákjósanlegast að horfa á strákana okkar spila? Mannlíf ræddi við valinkunna andans menn og konu um morgundaginn sem margir hafa beðið eftir.

Hvaða þýðingu hefur leikurinn?

Ekki bara fyrir Ísland

Bergur Ebbi Benediktsson.

„Þegar Heimir landsliðsþjálfari tilkynnti hvaða 23 leikmenn færu á HM sagði hann eitthvað á þá leið að þessir leikmenn sem hann hefði valið væru ekki bara fulltrúar Íslands á HM heldur líka allra þjóðanna sem komust ekki á HM. Þessi orð Heimis hafa setið dálítið í mér og ég held að þetta sé hárrétt,“ segir Bergur Ebbi Benediktsson. „Maður hefur til dæmis heyrt af því að margir Ítalir og Bandaríkjamenn ætli að halda með Íslandi og það er auðvitað ekkert skrýtið að stórar þjóðir sem komust ekki á HM en telja sig eiga skilið að vera á HM styðji frekar litlu liðin en þau stóru. Og svo eru það allar litlu þjóðirnar sem samsömuðu sig kannski áður við önnur lítil lönd, eins og Bosníu eða Danmörku, sem hafa gert góða hluti á knattspyrnusviðinu, en samsama sig við okkur núna. Maður hefur sjálfur stutt svona dvergþjóðir á stórmótum í gegnum tíðina og ég myndi halda að Ísland ætti vinninginn í þeirri keppni á HM í ár.“

Bergur Ebbi lítur á þátttöku Íslands á HM Rússlandi sem sannarlega mikilvægt augnablik í íslenskri íþróttasögu, en ekki síður í sögu heimsmeistaramótsins í knattspyrnu.

„Ég er dálítill nörd og mikill áhugamaður um sögu HM. Þegar maður fer yfir þá sögu er einna skemmtilegast að sjá svona litlar þjóðir reka inn nefið hér og þar. Norður-Írland, El Salvador, Kosta Ríka og fleiri, og svo auðvitað Úrúgvæ sem eru tvöfaldir heimsmeistarar þrátt fyrir að telja aðeins um þrjár og hálfa milljón íbúa. Þetta eru sögurnar sem standa upp úr og það verður spurt um þátttöku Íslands á HM í Rússlandi í pöbb-kvissum svo áratugum skiptir,“ segir Bergur en hann er einn þeirra heppnu sem verða á Spartak-vellinum í Moskvu á morgun þegar þessi mikilvægi leikur fer fram.

„Þetta verður endurtekning á Englandsúrslitunum. Mér dettur ekki í hug að spá neinu öðru.“

„Ég hef hugsað mikið um leikinn og öðru hvoru klárast bara orkan og ég er eiginlega bara dofinn núna. Það er ýmislegt sem þarf að græja og gera fyrir ferðina og ég er mjög feginn því að verða líkamlega staddur á leiknum en ekki að horfa heima í stofu. Þegar ég horfði á fyrsta leik Íslands gegn Portúgal á EM 2016 leið mér hreinlega illa og fannst eins og ég væri að ganga í gegnum einhver mjög alvarleg persónuleg mál.“

- Auglýsing -

Hann segist vonast til þess að íslenskir áhorfendur nái upp góðri stemningu á Spartak-vellinum og hann komi vissulega til með að taka þátt í víkingaklappinu fræga. „Ég læt mig bara berast með stemningunni. Auðvitað er mögulegt að ofgera víkingaklappinu ef það er tekið úr sínu rétta samhengi en á stórum leikvangi þar sem Ísland er að keppa í stórleik finnst mér það alveg geðveikt,“ útskýrir Bergur Ebbi og spáir að lokum 2-1 sigri Íslands á Argentínu á morgun. „Þetta verður endurtekning á Englandsúrslitunum. Mér dettur ekki í hug að spá neinu öðru.“

Hvernig spilast leikurinn?

Argentína gæti misst hausinn

Anna Svava Knútsdóttir.

„Þetta verður erfiður leikur, enda Argentínumenn ein mesta fótboltaþjóð veraldar og því við ramman reip að draga. En íslenska liðið hefur ítrekað sýnt það og sannað að það spilar jafnan best þegar mest er undir og getur því valdið hverjum sem er áhyggjum, hvort sem þeir heita Messi, Ronaldo eða Janus Guðlaugsson,“ segir Anna Svava Knútsdóttir og bætir við að mikið muni velta á því hvernig fyrstu 20 til 25 mínútur leiksins spilast. „Ef við náum að halda aftur af Argentínu framan af fyrri hálfleik er allt eins líklegt að stjörnuleikmennirnir þeirra stressist upp og gleymi undirstöðuatriðum knattspyrnunnar, eins og gerðist með Englendinga þegar við slógum þá út úr EM í Frakklandi fyrir tveimur árum. Þegar þeir missa hausinn verðum við að vera tilbúin til að láta til skarar skríða. Pressan á Messi að vinna HM áður en hann leggur skóna á hilluna ætti með réttu að vinna með okkur og gegn Argentínumönnum. Að því sögðu þá væri jafntefli alls ekki slæm úrslit fyrir okkur, en mig grunar að Heimir komi til með að senda liðið út á völlinn með það eitt að markmiði að sigra.“

„Þetta verður erfiður leikur, enda Argentínumenn ein mesta fótboltaþjóð veraldar og því við ramman reip að draga.“

- Auglýsing -

Anna Svava segist spennt að sjá hvernig Heimir Hallgrímsson stillir byrjunarliðinu upp. „Hannes Þór Halldórsson, vinur minn, er mikilvægasti leikmaður liðsins að mínu mati og ég bið til guðs að hann haldist heill. Eins vona ég að Aron Einar byrji leikinn, leiðtogahæfileikar hans og geta til að stýra leik liðsins eru ómetanlegir þættir. Fyrirliðinn verður þó að meta það sjálfur ásamt sjúkraþjálfurum hvort hugsanlega væri betra að sleppa þessum leik og vera frekar klár fyrir leikinn gegn Nígeríu. Margir spá því að við komum til með að spila leikkerfið 4-5-1, þá væntanlega með Jón Daða Böðvarsson einan frammi, en eitthvað segir mér að við neglum í eitt strangheiðarlegt 4-4-2 og treystum á hina klassísku samvinnu litla og stóra frammi, Jóns Daða og Alfreðs Finnbogasonar markamaskínu. Ísland er kannski ekki með leiknustu leikmenn í heimi, en við getum hæglega sýnt mestu grimmdina, baráttuna og viljann og verið bestir í föstum leikatriðum,“ segir Anna Svava spennt.

Hún spáir því að Ísland sigri Argentínu með einu marki gegn engu. „Gylfi Sigurðsson skorar markið sem ræður úrslitum seint í síðari hálfleik.“

Hvar á að horfa á leikinn?

Dreymir um HM-stofu á pallinum heima

Sóli Hólm.

„Ég er með mikil plön og stóra drauma um þennan dag, en ég veit ekki enn hvort það verður af þeim. Mig langar nefnilega rosalega mikið til að byggja mína eigin HM-stofu á pallinum heima, flytja 65 tommu sjónvarpið út í garð og tengja alvörusánd í það. Sándið er lykilatriði þar sem ég bý við Hringbraut og umferðarniðurinn getur verið mikill. Svo myndi ég fleygja einhverju lystugu á grillið og allt yrði gjörsamlega geggjað. Þetta er draumurinn, en kannski enda ég bara einn niðri í kjallara að horfa á leikinn eins og gerðist fyrir tveimur árum þegar Ísland spilaði við Austurríki. Þá stóð ég einn öskrandi fyrir framan sjónvarpið og það var ágætt. En ef allt fer að óskum og spáin verður þokkaleg verður það HM-stofa úti í garði og allir velkomnir. Því fleiri, því betra,“ segir Sóli Hólm.

Áður en íslenska liðið hélt utan til Rússlands áttu liðsmenn notalega kvöldstund ásamt fjölskyldumeðlimum sínum og Sóla, sem hélt rúmlega klukkustundarlangt uppistand fyrir mannskapinn. „Að sjálfsögðu vil ég standa mig vel á öllum mínum „giggum“ en þetta var eitt af þeim sem ég vildi alls ekki klúðra, því þótt strákarnir séu nánast allir yngri en ég lít ég samt upp til þeirra. Það gekk eftir og stemningin var geggjuð. Mér sýndust landsliðsstrákarnir vera mjög slakir og yfirvegaðir miðað við aðstæður og það besta var að ég heyrði af því að andinn á æfingunni daginn eftir uppistandið hefði verið léttari en daginn áður og að menn hefðu jafnvel verið að vitna í góðar línur frá mér. Það eitt og sér er næg umbun fyrir mig,“ segir Sóli sem var leystur út með forláta treyju, áritaðri af öllum í landsliðinu.

Sóli vill þó ekki skrifa undir þá uppástungu blaðamanns að ef Ísland vinnur Argentínu sé það að miklum hluta honum sjálfum að þakka. „Nei, alls ekki, því það þýðir að það verður líka mér að kenna að við töpum. Ég ber enga ábyrgð á gengi liðsins, en ég trúi því að við getum unnið. Leikurinn fer 1-0 fyrir okkur.“

Aðalmynd / KSÍ

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -