Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, og Karl Sigurbjörnsson, fyrrverandi biskup Íslands, eru meðal þeirra sem minnast Ágústu K. Johnson með fallegum minningarorðum í dag. Hún verður jarðsungin í dag.
Ágústa, fyrrverandi deildarstjóri í Seðlabanka Íslands, fæddist í Reykjavík 22. mars 1939. Hún lést á heimili sínu 21. nóvember 2020. Hún var ógift og barnslaus.
Ágústa lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands og hóf þá störf í Landsbanka Íslands. Við stofnun Seðlabanka Íslands fluttist hún yfir til Seðlabankans og var í hópi fyrstu starfsmanna hans við stofnun, ritari hjá nýskipuðum bankastjóra. Hún vann hjá Seðlabanka Íslands nær allan sinn starfsferil eða í tæpa hálfa öld, lengst af sem deildarstjóri skrifstofu bankastjóra. Ágústa var félagslynd, trúuð og kirkjurækin og tók virkan þátt í safnaðarstarfi Dómkirkjunnar. Hún var í stjórn Kirkjunefndar kvenna Dómkirkjunnar.
„Engum duldist hlýhugurinn sem lýsti af björtu brosi hennar, góðvild og glaðværð og ómaði í björtum hlátrum.“
Davíð Oddson, sem starfaði um skeið sem Seðlabankastjóri, minnist Ágúst sem lykilkonu seðlabankastjóranna sem þar hafa starfað enda hafi hún verið samofin bankanum frá fyrstu tíð hans. Það gerir hann í minningargrein í Morgunblaðinu. „Bæði bankinn og guðsríki, sem varlega skal þó farið í að tvinna fastar saman en þetta, áttu traustan stað í hjarta og huga Ágústu alla tíð. Hún var frá fyrstu stundu mikilvægur starfsmaður í lykilstöðu, og svo alla sína starfstíð helsti trúnaðarmaður æðstu stjórnenda bankans um áratuga skeið. Margir eru enn til staðar sem geta sagt þá sögu alla svo miklu betur en ég get gert. En þótt ég hafi staðið stutt við þar, verður því ekki haldið fram að sá tími hafi verið viðburðasnauður í sögu bankans,“ segir Davíð.
Davíð greinir frá því að Ágústa hafi sjálf gengið útúr bankanum þegar hann var hraktur þaðan eftir bankahrunið. Þá hafi hún pakkað inn uppáhalds kaffikrúsinni hans Davíðs sem kveðjugjöf. „Fyrsta morguninn í bankanum hafði Ágústa fært mér ilmandi kaffibolla á kontórinn. Ég sagðist hafa vanið mig á það í ráuneytunum og á borgarstjóraskrifstofunni að ná í mitt kaffi sjálfur, nema þegar ég hefði gesti og rölta svo með kaffið og taka hús á samstarfsfólki mínu við misgóðar undirtektir. Ágústa sagðist gjarnan vilja fá að halda sínum takti um fyrsta bolla dagsins, eins og tískast hefði frá upphafi. Sú varð auðvitað niðurstaðan. Ég tók eftir því að fyrsti bollinn minn var ólíkur hefðbundnum og virðulegum seðlabankabollum, enda krús með snotrum kattamyndum. Ágústa sagðist vita fyrir víst að nýi bankastjórinn væri veikur fyrir köttum, eins og hún sjálf og hefði því ákveðið að byrja daginn jafnan með þessum bolla, nema annað yrði ákveðið. Krúsin kom á morgnana eftir það, segir Davíð og bætir við:
„Þegar leið á síðasta daginn í bankanum færði Ágústa mér bollann innpakkaðan og sagði hann eiga heima hjá mér. Ég var ekki viss um að vel færi á því þar sem bollinn væri eign bankans. Ágústa hélt nú ekki. Hún hefði keypt hann sjálf úr sinni buddu og réði því hvað af honum yrði. Sjálf gæti hún ekki hugsað sér að vera áfram þennan mánuð sem hún ætti eftir af sinni starfsævi, eftir hina ódrengilegu aðför og myndi fylgja okkur bankastjórunum úr bankanum.“
„Ágústa var blíð og trygglynd kona, en föst fyrir þegar það átti við, og ekki síst ef hún taldi að heiður bankans hennar væri undir.“
Karl, fyrrverandi biskup, ritar einnig fallega minningargrein um Ágústu. Hann hefur komið að starfi kirkjunnar síðustu ár og þar kynntust þau Ágústa. „Við eignuðumst þar ómetanlega vini sem hafa verið okkur styrkur og blessun og er okkur óumræðilegt þakkarefni. Í þeim hópi var frú Ágústa Johnson sem jarðsungin er í dag. Hennar er sárt saknað og tómarúmið sem hún skilur eftir í því samfélagi verður ekki fyllt. Tryggð hennar og trúfesti var engu lík. Engum duldist hlýhugurinn sem lýsti af björtu brosi hennar, góðvild og glaðværð og ómaði í björtum hlátrum. Alltaf var hún boðin og búin til hjálpar og sparaði ekki sporin meðan heilsa og kraftar leyfðu,“ segir Karl.
Karl segir að nærvera Ágústu í kirkjunni hafi verið bæði hlý og gefandi. „Hún var einlæg í trú sinni, kærleikur hennar til Guðs orðs leyndi sér ekki og einlægur áhugi hennar að efla og styrkja trúna í samfélaginu, ekki síst miðlun trúarinnar til hinna ungu. Í tilefni af áttræðisafmæli hennar í fyrra stofnuðu vinir hennar Ágústusjóð til að kaupa fyrir Biblíur til að gefa fermingarbörnum Dómkirkjunnar. Við vitum að það gladdi hana mjög. Hún þekkti vel orð frelsarans að sælla er að gefa en þiggja, og lifði samkvæmt því,“ segir Karl og heldur áfram:
„Hún var sannur vinur vina sinna og margir nutu fórnfýsi hennar og hjálpsemi fyrr og síðar. Kærleikur hennar og umhyggjusemi átti sér engin takmörk og fádæma samviskusemin og trúmennskan í því sem henni var trúað fyrir. Hún átti langan og farsælan starfsferil í Seðlabankanum og var virt og elskuð af yfirmönnum og samstarfsfólki fyrr og síðar. Líf hennar var helgað þjónustunni og umhyggjunni um aðra. Nú er hún kvödd hinstu kveðju í birtu aðventunnar með ljóma jólanna fyrir augum. Trúaraugum sjáum við hana gleðjast í þeirri jólagleði sem tekur aldrei enda.“
Davíð segir að Ágústa hafi síðsta áratug sinn sínum helstu hugðarefnum og ræktað vel vinahópinn sinn. „Það var jafnnotalegt og áður að hitta hana enda geislaði af henni til síðustu stundar. Hún varð fyrir óvæntu heilsuáfalli heima við og lá á sjúkrahúsi um hríð. Í veirutíð var umhendis að vitja hennar. Þegar hún var komin heim áttum við elskulegt og gott samtal. Það var gleðiefni hve hún var þá orðin sjálfri sér lík og hugsaði, eins brött og hún gat, til framtíðar og sagðist smám saman finna fyrir auknum styrk og honum fylgdi aukin bjartsýni. Fáum dögum síðar skall á annað áfall og það afgerandi. Ágústa var blíð og trygglynd kona, en föst fyrir þegar það átti við, og ekki síst ef hún taldi að heiður bankans hennar væri undir. Hún var vel gerð og mannbætandi að fá að eiga vináttu hennar,“ segir Davíð.
Ágústa verður jarðsungin frá Dómkirkjunni í dag kl. 13 að viðstöddum nánustu aðstandendum. Athöfninni verður streymt hér. Þegar aðstæður leyfa á ný þá verður minningarstund um Ágústu Johnson í Dómkirkjunni opin öllum.