Leiðari úr 47 tölublaði Vikunnar 2020
Ekki er langt síðan að hófsemi, lítillæti og hæfni í húshaldi voru taldar helstu dyggðir hverrar konu. Þær áttu að iðja og strita manni sínum, börnum og heimili til heilla burtséð frá því hvar áhugasvið þeirra sjálfra lægi. Til allrar lukku er þetta breytt en eins og við er að búast eru til margar konur sem njóta þess að baka, þrífa, skreyta, sauma, prjóna og stússast inni á heimilinu. Þær gera það með fullu starfi við eitthvað allsendis óskylt og njóta hvoru tveggja í botn. Húsmóðurstörfin eru nefnilega langt frá því að vera leiðinleg. Að þrífa skilar ljómandi húsi sem angar af hreinlæti og það er gefandi að horfa yfir og njóta afrakstursins af vel unnu verki. Á barnaheimilum er svo allt farið á hvolf aftur daginn eftir en þá er bara að fagna enn betur næst þá stuttu stund sem allt er hreint og fínt.
Bakstur, matseld og hannyrðir eru hins vegar ákaflega skapandi. Þar gefst tækifæri til að setja sinn svip á hvert verk, búa til eitthvað nýtt frá grunni og bæta og endurskapa eitthvað sem aðrir hafa lagt grunn að. Nákvæmlega hið sama gera listamenn í öllum greinum á hverjum degi. Þótt maturinn hverfi ofan í svanga maga lifir minningin um hann lengi. Hjördís Dögg Grímarsdóttir er ein þeirra sem kalla mætti listakonu í eldhúsinu. Hún stofnaði síðuna mömmur.is með móður sinni og systur en heldur henni nú úti ein. Þar má sjá ótrúlega fallegar kökur, ljúffenga rétti, fá góð ráð og fleira. Hjördís hefur verið fastur gestur í kökublaði Vikunnar og boðið þar glæsileg hlaðborð gómsætra og jólalegra rétta.
Okkur langaði að kynnast henni betur. Vita hver væri persónan að baki öllu þessu fallega og girnilega bakkelsi. Í ljós kom að það er glaðlynd, jákvæð og dugleg kona. Hjördís á tvo drengi, báðir voru magakveisubörn sem þurftu mikla umönnun. Sá yngri er með sykursýki 1 en lætur það ekki stöðva sig og stundar íþróttir á fullu og passar vel upp á jafnvægi í mataræði og hvíld. Hún bjó í Grindavík um tíma og mætti þar oft með nýbakað góðgæti á kennarastofuna í skólanum. Þar var hún kölluð „húsmóðir dauðans“. Og á nafnbótina sannarlega skilið þótt hugsanlega megi orða þetta á smekklegri hátt. Þrátt fyrir að hafa tekist á við erfiðleika eins og aðrir ræktar hún þakklæti og einbeitir sér að því jákvæða fremur en hinu. Sannkölluð íslensk ofurkona sem lætur mótlæti ekki buga sig heldur styrkja.