Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens tók þátt í því að gleðja Davíð Kristinsson á Seyðisfirði með því að árita fyrir hann plötusafn með sá síðarnefndi glataði í aurskriðunum hræðilegu. Bubbi hefur einnig boðið öllum Seyðfirðingum á Þorláksmessutónleikana sína í kvöld.
Bubbi lét vita af þessu á samfélagsmiðlareikningi sínum á Instragram og fékk hrós fyrir þetta fallega góðverk fyrir jólin. „Alda Music hefur gefið Davíð vínilplötur. Hann tapaði Bubba safninu þegar aurskriða féll á húsið hans á Seyðisfirði. Ég áritaði,“ segir Bubbi.
Í samtali við Mannlíf segist Davíð ekki koma til með að geta búið í húsinu sínu næstu mánuði. Hann hlakkar mikið til að horfa á tónleika Bubba í kvöld. „Ég get ekki beðið. Það verður gott að kúpla sig út andlega. Plöturnar verða kærkomar og gera mér kleift að setjast niður þegar við verðum búin að endurbyggja húsið og hlusta á plötunar með Bubba sem eru mér svo kærar og hafa skapað mitt heimili. Ég hlakka sjúklega mikið til að geta setið úti garði og skriðan sem féll á húsið mitt verður aftur orðin græn og við getum farið og dansað á regnbogastræti,“ segir Davíð.
Davíð birti sjálfur færslu á Facebook rétt í þessu þar sem hann þakkar bæði Bubba og öllum þeim sem hafa hjálpað Seyðfirðingum síðustu daga. Þakklæti er honum greinilega efst í huga. „TAKK er líklega það orð sem mér er efst í huga. Það eru svo margir sem mér langar að segja takk við. Munum hvort annað. Ég er mjög stoltur að hafa fengið að hafa verið partur af öllu þessu geggjaða hjálparfólki. Þetta er svo sjúklega flottur hópur. Þetta var klárlega gegjgað samstarf, vá vá TAKK,“ segir Davíð og bætir við:
„Takk Seyðisfjörður og seyðfirðingar við erum æðislegt samfélag ég er svog glaður að fá að vera partur af því. TAKK. Takk fyrir allan þann stuðning og kveðjur sem ég og mín fjölskylda höfum fengið. Ég hef svo sannarlega grátið af gleði yfir hjartahlýju frá fólki og fyrirtækjum. TAKK. Ég óska öllum sjúklega æðislegra jóla. Get ekki beðið eftir að horfa á tónleika með Bubba í kvöld sem hann gaf öllum á Seyðisfirði aðgang. TAKK Bubbi. Munum hvað við vorum vernduð að hafa ekki misst neinn Seyðfirðing. Það er svo sannarlega jólakraftaverk. Það er bara þannig TAKK. TAKK til allra.“