Bláberjabaka sem er bæði holl og góð.
Sætindi þurfa ekki alltaf að vera óholl, sætar ávaxtakökur með hunangi, agave-sírópi og þurrkuðum eða ferskum ávöxtum eru fullar af fjöri og góðri orku. Fjörgandi freistingar og ekkert samviskubit. Eins og þessi bláberjabaka sem svíkur engan.
Bláberjabaka
fyrir 8-10
Þetta er hrákaka. Bláber, möndlur og hnetur eru ekki bara góð heldur líka ofurholl fæða, full af víta-mínum.
Botn:
150 g ferskar döðlur
130 g möndlur
2-3 msk. hunang eða agave-síróp
Setjið smjörpappír í botninn á 22 cm smelluformi. Fjarlægið steina úr döðlum. Setjið möndlur í matvinnsluvél og malið fínt. Bætið döðlum og hunangi út í og maukið vel. Setjið deigið í formið og þrýstið því niður í botninn, kælið.
Fylling:
1 dl kókosmjöl
1 dl ristaðar furuhnetur eða kasjúhnetur
2 dl bláber, fersk eða frosin og afþýdd
1-2 msk. hunang eða agave-síróp eða eftir smekk
2-3 msk. kókosolía, mýkt í krukkunni ofan í vatnsbaði
1-2 tsk. sítrónusafi
Ofan á:
1-2 dl fersk bláber
1 tsk. fínt rifinn sítrónubörkur
Setjið allt í matvinnsluvél og maukið. Hellið fyllingunni í formið og dreifið ferskum bláberjum yfir, kælið í 30 mín. Losið kökuna úr forminu og setjið á disk, hún vill límast svolítið við pappírinn þannig að það er gott að hvolfa henni á annan disk, fletta pappírnum af og hvolfa henni síðan á diskinn sem þið ætlið að bera kökuna fram á. Skreytið með sítrónu- eða límónuberki og berið fram með þeyttum rjóma.
Rannsakendur segja að 15-25 g af hnetum á dag geti dregið úr hættunni á hjartasjúkdómum og sykursýki. Heslihnetur innihalda t.d. arginine, amínósýru sem talin er lækka blóðþrýsting. Möndlur innihalda polyfenól sem talin eru hjartastyrkjandi og lækka slæma kólesterólið (LDL) í blóðinu. Meðalhófið gildir hér þar sem hnetur eru hitaeiningaríkar.
Mynd / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir