Í Kópavogi ala einhverjir með sér þá von að Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins sé á förum úr bæjarstjórnarpólítíkinni og stuðningsmenn Gunnars Birgissonar, fyrrverandi bæjarstjóra, nái aftur undirtökunum í bænum.
Eftir kosningar 2019 settu þrír bæjarfulltrúar, Karen Halldórsdóttir, Margrét Friðriksdóttir og Guðmundur Gísli Geirdal, úrslitakosti þar sem þau neituðu áframhaldandi samstarfi við þáverandi samstarfsflokk, Bjarta framtíð og óskuðu eftir að mynda meirihluta með Framsóknarflokknum. Í kjölfar þess að Theodóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir hjá Bjartri framtíð gaf það frá sér í útvarpsviðtali á Bylgjunni að starfa áfram með Sjálfstæðisflokknum samþykkti Ármann en að fara í meirihluta með Framsókn. Samstarfið við Framsóknarflokkinn í Kópavogi hefur gengið ágætlega en klofningur í Sjálfstæðisflokknum er áþreifanlegur. Klofningurinn birtist í samstarfi Guðmundar Geirdal og Karenar Elísabetar Halldórsdóttur gegn Ármanni á meðan Margrét Friðriksdóttir og Hjördís Johnsen hafa verið hlutlaus.
Stjórn fulltrúaráðs fjálfstæðisfélaganna hafði í kjölfar dóms sem Guðmundur Geirdal hafði fengið á sig á árinu 2019 ályktað að Guðmundur ætti að stíga til hliðar sem bæjarfulltrúi og að minnsta kosti ætti að víkja honum úr ráðum og nefndum á vegum flokksins. Var þetta gert vegna mikils þrýstings úr grasrót flokksins enda fannst mörgum óeðlilegt að bæjarfulltrúi sæti áfram sem hafði komið sér undan að greiða skatta og skyldur til ríkis og bæjar. Guðmundur sá ekki ástæðu til að víkja og studdi Karen hann í þeirri afstöðu. Á þessu ári steig Guðmundur hinsvegar til hliðar sem formaður velferðarnefndar og hefur mætt illa á fundi hjá bænum en þiggur laun sem bæjarfulltrúi.
Nú heyrist að Ármann sé alls ekki á förum en ætli að berjast af hörku og þekktum klókindum fyrir oddvitasæti sínu eftir rúmt ár og afgreiða Guðmund Geirdal og Karen út af borðinu. Það má því búast við blóðdögum í Kópavogi …