Góðgerðarsamtökin Sharp Dressed Man voru stofnuð í Baltimore í Bandaríkjunum árið 2011 af feðgunum Christopher og Seth Schafer. Markmið samtakanna er að veita karlmönnum stuðning þegar þeir snúa aftur út á vinnumarkaðinn úr fangelsi eða meðferð.
Christopher er klæðskeri sem sérsaumar háklassa jakkaföt, en hugmyndin að Sharp Dressed Man kom til hans þegar hann var að leita leiða til að nýta þau jakkaföt sem ekki seldust. Nú hagar hann góðgerðarvinnunni þannig að hann leitar að framlögum frá fyrirtækjum og viðskiptavinum sínum og á hverjum miðvikudegi koma til hans karlmenn til að fá frí föt, klippingu og heita máltíð.
Christopher glímdi sjálfur við fíknivanda og finnst mikilvægt að hjálpa karlmönnum að fóta sig aftur í lífinu.
Rannsóknir hafa sýnt að það skiptir máli að koma vel fyrir í atvinnuviðtölum, en síðan góðgerðarsamtökin voru stofnuð hafa þau skapað tengsl við fullt af ráðningarskrifstofum og breytt lífi fjölmargra karlmanna.