„Ég átti Hagkaupspoka sem nýttist mér í rúmlega ár,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og gagnrýnir harðlega að búið sé að banna plastpoka. Jafnframt er hann ósáttur við að þau fyrirtæki sem áttu birgðir af plastpokum neyðist til að farga þeim eða láta þá hverfa. Segir Sigmundur þetta tilkomið til þess að draga úr plastmengun í hafi. Formaður Miðflokksins er annars mjög hrifinn af ágæti plastpoka.
„Ég notaði jafnan plastpoka sem skólatösku á háskólaárunum og var stundum hafður að háði og spotti fyrir vikið. Það var vegna þess að pokarnir þóttu hallærislegir, ekki vegna þess að ég væri grunaður um að ætla að henda þeim í sjóinn. En þeir voru praktískir.“
Sigmundur segir plastpoka úr verslun geta borið 10 kíló.
„Framleiðsla bómullarpoka losar hátt í 200 sinnum meira af gróðurhúsalofttegundum og þá er gert ráð fyrir að plastpokinn sé bara notaður einu sinni.“
Ég átti Hagkaupspoka sem nýttist mér í rúmlega ár.
Þá spyr Sigmundur Davíð hvort ekki megi fara líta á heildarmyndina í umhverfismálum. Hann segir að lokum:
„Er mikið um að Íslendingar hendi plastpokum í sjóinn? Varla. Auk þess halda pokarnir utan um sorp og koma í veg fyrir að það fjúki í sjóinn.“