„Snillingur, nú ertu farinn! Fyrr en mig hefði órað fyrir. Þrátt fyrir að þú hefðir átt við nokkra vanheilsu að stríða hin síðustu ár þá vonuðum við báðir að þú myndir ná þér og að við vinirnir myndum skunda á Þingvöll næsta vor. En þá kom höggið, illkynja æxli kom í ljós og eftir stutta legu á Landspítalanum varstu allur.“
Þetta segir Óttar Felix Hauksson um vin sinn, Þór Nielsen sem féll frá 19. desember og hefði orðið áttræður í maí á þessu ári.
Þór söng og lék á gítar með fjölda hljómsveita. Má nefna sveitir eins og J.J. quintet, Junior kvintett, Tígris sextettinn, Pónik, Venus kvartettinn, Þórsmenn, City sextett, Ásar, Glæsir, Flamingo kvartetttinn og Tríó Elfars Berg.
Þór átti hann ekki langt að sækja tónlistaráhugann, amma hans spilaði á píanó og afi á fiðlu. Þau voru dönsk, afi hans, Emil Nielsen, var fyrsti framkvæmdastjóri Eimskips.
En Þór var ekki aðeins tónlistarmaður, hann var einn sá allra besti í fluguhnýtingum og hefur kennt þær á veturna.
Í viðtali við Morgunblaðið greindi Þór frá því að skemmtilegasti tíminn var þegar hann söng og lék með Ásum og hljómsveit Gissurar Geirssonar frá Selfossi.
„Ég spilaði með þeim á Spáni og á Gullfossi, og það var auðvitað ógleymanlegt. Það var svo gaman að ferðast og spila, einkum úti á sjó. Ég spilaði á Gullfossi í tvö ár og fór með honum síðustu ferðina. Þarna voru oft mörg fræg andlit og skemmtileg stemmning. Og ekki spillti að eiginkonan var með í ferðum. Við spiluðum líka í fleiri löndum, tókum eitt sinn lagið með hljómsveit í Hollandi og gerðum mikla lukku. Þeir voru alveg hissa á hvað svona jólasveinar gátu og vildu helst ekki sleppa okkur. Hann var líka skemmtilegur tíminn þegar ég var að byrja í bransanum. Í þá daga voru menn fínir í tauinu þegar þeir voru að spila. Það voru ekki gallabuxurnar og bolirnir þá.“
Þór var atvinnumaður í tónlist í um þrjátíu ár. Hann var kvæntur og átti fjóra syni. Honum fannst oft þreytandi að vera í eilífri næturvinnu. Í viðtalinu í Morgunblaðinu segir einnig:
„Eftir að ég hætti vissi ég ekki hvað ég átti af mér að gera um helgar, maður var jú vanur að fara að „sjæna“ sig svona seinnipartinn.“
En Þór gerði ýmislegt fleira en að spila. Á sumrin var hann við veiðar og á veturna kenndi hann fluguhnýtingar, enda talinn með þeim bestu og af mörgum sá færasti í þeirri grein.
„Ég byrjaði að veiða á flugu fimmtán ára gamall. Fékk að sitja aftan á vörubílum inn að Elliðavatni, þar sem maður stalst svo í ána. Þegar ég var að spila í Glæsibæ kom ég oftast heim klukkan fjögur að nóttu og var svo farinn klukkan hálf fimm austur á Þingvöll til að veiða. Ég veiddi allan daginn, fór svo heim, skipti um föt og var kominn á sviðið klukkan átta.
Konan mín var alveg hissa því að ég var aldrei í rúminu á morgnana. Alltaf tómt rúmið, horfinn karlinn. Þetta gerði ég helgi eftir helgi, öll sumur. Þurfti bara að sofa á haustin. Það var mitt líf og yndi að koma austur á Þingvöll á morgnana þegar allt var að vakna, fuglarnir og náttúran. Nú bíður maður bara eftir vorinu.“
Tómleik og sorg
Óttar Felix segir að fluguveiðin og tónlistin hafi tengt þá sterkum böndum og fóru þeir margar ferðir á hverju sumri að Þingvallavatni til silungsveiða. Óttar Felix segir:
„Á leiðinni hlustuðum við á tónlist sjötta áratugarins, þar varst þú svo sannarlega á heimavelli, þekktir öll lögin, hafðir sjálfur leikið flest þeirra enda þekktur hljóðfæraleikari og söngvari frá árum áður.“
Þá segir Óttar Felix á öðrum stað: „Ég fann fyrir tómleika við tíðindin, tómleika og sorg. Vináttubönd okkar voru afar sterk, allt frá fyrstu kynnum fann ég hversu vel við náðum saman þrátt fyrir níu ára aldursmun. Þú varst svo glaðlyndur og áhugasamur.“
„Þú varst lærimeistari minn í háskóla fluguveiðinnar, Þingvallavatni. Þekking þín og reynsla af vatninu spannaði yfir sjötíu ár. […] Þú varst einn af bestu fluguhnýturum landsins, sannarlega snillingur á því sviði. Flugurnar þínar eru frægar, hafa birst í bókum og tímaritum og hafa verið seldar í verslunum, verða eflaust eftirsótt fágæti meðal flugveiðimanna á næstu árum.“ Þá segir Óttar Felix að lokum:
„Ég votta Bjarneyju, eiginkonu þinni, sonunum og fjölskyldum þeirra, dýpstu samúð mína. Þegar Mannssonurinn, á dómsdegi, kemur í dýrð sinni og skilur sauðina frá höfrunum, er ekki ólíklegt að almættið kjósi að hafa góðan fluguhnýtara innan sinna vébanda á veiðilendum eilífðarinnar.
Guð blessi minningu Þórs Nielsen, þess góða drengs.“