Sigríður María Eyþórsdóttir tónlistarkennari í Grindavík var beðin um það á samfélagsmiðlum að deila matarskipulagi og öðrum snjöllum ráðum er varða matarinnkaup. Sigríður María eða Sigga Maya eins og hún er gjarnan kölluð fullyrðir að með planinu hafi matarútgjöld heimilisins lækkað um allt að 40 prósent. Góð búbót það! Matarsóun heyrir sögunni til og ekkert keypt í skyndi eða fyrir tilviljun í matvörubúðum.
Matarskipulagið er stafrænt og snyrtilegt og kveðst hún kolfallin fyrir forminu og nú þegar farin að fylla út fyrir marsmánuð. Fleiri hafa þennan háttinn á og lýsa yfir á samfélagsmiðlum að með fyrirkomulaginu sparist bæði tími og peningar. Sjá má Matarskipulagið neðar í fréttinni.
„Svona skipulag er sem sagt gert fyrir hvern mánuð ásamt innkaupalista sem dekkar allt sem á skipulaginu er, auk almennrar neysluvöru. Ég byrja á því að setja það inn í mánaðarskipulagið sem nú þegar er til. Eins og sjá má á ég núna slatta af frosnum bollum í frysti og ætla mér að koma þeim út, auk flatkaka,“ segir hún og bætir við:
„Þá vantar ekkert á heimilið nema ferskar mjólkurvörur, ávexti og grænmeti og útgjöld því í algeru lágmarki út mánuðinn. Ég fullyrði að þetta verklag sé að lækka matarútgjöld heimilisins um 40% frá því sem áður var með engri matarsóun, hagkvæmni og engum skyndihugdettu innkaupum.“
Bónus verður oftast fyrir valinu þegar farið er í mánaðarlega innkaupaferð, en nokkrar vörutegundir finnur hún í COSTCO. Mjólkurvörur, ávextir og grænmeti er keypt í Nettó. Ástæðan er einföld, það er eina verslunin sem stendur Grindvíkingum til boða. Sigga Maya segir:
„Ég fullyrði að með þessu skipulagi takist mér að tæplega helminga þá upphæð sem ég annars færi með í innkaup enda aldrei keypt neitt umfram það sem er á innkaupalistanum.“
Hér má sjá skipulagið en með því að smella hér má sjá það í fullri upplausn.
Hér fyrir neðan er að finna nokkur sparnaðarráð Sigríðar Maríu. Við gefum henni orðið:
Ástæðan fyrir því að ég fór að hafa mikinn áhuga á skipulagningu heimilishalds var sú að við hjónin höfum upplifað miklar sveiflur í launum í gegnum tíðina, bæði vegna atvinnuástands og veikinda.
Ég gerði mér fljótt grein fyrir að það væri tiltölulega auðvelt að stjórna stórum hluta útgjalda heimilisins með útsjónarsemi og skipulagningu. Það eru nokkur ár síðan ég fór að skipuleggja öll mánaðarleg matar og rekstrarvöruinnkaup heimilisins fyrir fram og í dag get ég ekki hugsað mér að hafa það öðruvísi.
Aðalatriðið er að vera meðvitaður um í hvað þú ætlar að nota peningana þína. Þú þarft ekki að spara frekar en þú vilt, en það er mikilvægt að vita hvert peningarnir fara. Það eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga ef maður ætlar sér að spara tíma og peninga á þennan hátt.
Frystir: Hver fjölskylda þarf að eiga frystipláss sem samsvarar geymsluplássi fyrir einn mánuð en aukalega fyrir frysta afganga.
Geymslupláss: Gera þarf ráð fyrir geymslurými fyrir matvöru fyrir heilan mánuð í það minnsta en að auki má gera ráð fyrir að með tímanum bætist við stærri einingar af neysluvöru s.s. sekkir af hrísgrjónum, Baunum o.f.l.
Skipulag: Alltaf byrja á að fylla út í skipulagið með því að taka vörutalningu í geymslu og frysti. Settu það sem þú átt inn í skipulagið fyrir næsta mánuð áður en þú ferð að skrifa niður matseðla.
Það er líka hentugt að hafa fasta rútínu á því hverskonar matur er í boði á hvaða degi. Til dæmis fiskur á mánudögum, grænmetisréttur á þriðjudögum o.s.f.
Þetta einfaldar yfirsýnina mikið og gerir öll innkaup auðveldari. Þegar allir aðalréttir hafa verið færðir inn á skipulagið er farið yfir hverja máltíð í huganum og meðlætið sett á tossalistann.
Afgangar eru líka matur og engin ástæða til þess að klára þá ekki þó manni finnist þeir ekki passa saman. Að tileinka einn vikudag afgöngum getur komið í veg fyrir alla matarsóun. Ef afgangarnir eru ekki nægir má alltaf krækja sér í aukabita úr frystinum góða.
Sumar og vetur eru ekki eins: stundum getur verið gott að aðlaga skipulagið að árstíðum. Á sumrin getur verið sniðugt að bæta við hádegismat og snarli inn í skipulagið, sérstaklega þegar kríli eru á heimilinu.
Er þetta mikil vinna?
Nei, ég lít á þessa aðferð sem gríðarlegan vinnusparnað. Vissulega er þetta handavinna fyrst til að byrja með sem kemst þó hratt upp í vana og mánaðarinnkaupin geta verið ansi krefjandi.
Ég veit þó að ég mun ekki þurfa að fara aftur í matvöruverslun nema í mesta lagi 4 til 6 sinnum þann mánuðinn.
Jákvæðu punktarnir eru fleiri: Í fyrsta lagi þarf ég aldrei að standa fyrir framan kæli í búð og velta fyrir mér hvað ég á að hafa í matinn í kvöld.
Í öðru lagi get ég með þessu móti unnið mér í haginn fyrir komandi daga. Til dæmis tekur jafn langan tíma að sjóða þrjú kíló af kartöflum og eitt kíló. Valið er því auðvelt og ég geri það frekar og á þá tilbúnar kartöflur í fljótlegan ofnrétt sem er á dagskrá seinna í vikunni. Það sama má gera með steikt hakk, hrísgrjón og í raun nánast hvað sem er.
Í þriðja lagi er yfirsýnin á neyslumynstri fjölskyldunnar mjög góð og sparnaðurinn mikill, sérstaklega þar sem um engar vanhugsaðar skyndiákvarðanir við kexhillurnar eða annan óþarfa er að ræða.
Þar að auki er kvöldmaturinn fastur punktur þar sem fjölskyldan sameinast í lok dags. Gott skipulag gerir allt auðveldara og andrúmsloftið léttara.