Donald Trump segist vera minna hrifinn af tónlist Taylor Swift eftir að hún tjáði sig um stjórnmál í gær.
Söngkonan Taylor Swift ákvað í gær að greina frá stjórnmálaskoðunum sínum á samfélagsmiðlum en hingað til hefur hún forðast að tala um stjórnmál. Í gær lýsti hún yfir stuðning sínum við tvo frambjóðendur Demókrataflokksins fyrir þingkosningarnar sem verða í nóvember.
Eftir að Swift greindi frá stjórnmálaskoðunum sínum sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti í samtali við fjölmiðla að honum líki 25% minna við tónlist hennar núna. Þá gaf hann einnig í skyn að hana skorti þekkingu á því sem hún sagði á Instagram.
Meðal þess sem Swift sagði á Instagram er að hún gæti ekki með góðri samvisku kosið Mörshu Blackburn, þingmann Repúblikana í Tennessee. „Ég er viss um að Taylor Swift veit ekkert um hana [Mörshu],“ sagði Trump í svari sínu.
Eftir að Taylor Swift greindi frá stjórnmálaskoðunum sínum er hún komin í hóp fjölmargra frægra einstaklinga sem Trump hefur deilt við opinberlega og móðgað. Dæmi um þekkta einstaklinga sem Trump hefur átt í útistöðum við í gegnum fjölmiðla og samfélagsmiðla eru Chrissy Teigen, Stephen King, Rosie O’Donnell, Jimmy Fallon, Stephen Curry, Robert De Niro, Alec Baldwin, Oprah, Snoop Dogg, Meryl Streep, Arnold Schwarzenegger, Whoopi Goldberg, Samuel L. Jackson og svona mætti lengi áfram telja.