Íbúar í miðbæ Reykjavíkur eru æfir út í veggjakrotara sem hika hvergi í að spreyja táknum á jafnt opinberar eignir sem og einaeignir.
Guðmundur nokkur er meðal þeirra brjáluðu og segir sögu sína inn í hópi hverfisbúa á Facebook. Þar birtir hann jafnframt mynd af veggjakroti á húsinu sínu í Þingholtunum. „Einhver umkomulaus vesalingur kom við hjá okkur á Grettisgötu til að sýna hvernig foreldrum hans hefði mistekist illilega við uppeldið á sér. Vonandi kemst hann í góðar hendur þar sem hann gæti lært eitthvað um mannasiði og umgengni við eigur náungans. Því fyrr því betra því honum líður illa. Kannast kannski einhver við handbragðið?,“ spyr Guðmundur.
Axel er líka æfur. „Það er með ólíkindum að sjá allt veggjakrotið í miðborginni. Það hlýtur að þurfa að koma höndum yfir þá sóða sem stunda þetta, því þeir eru að valda húseigendum jafn miklu tjóni og ef þeir brytust inn hjá þeim og skemmdu og eyðileggðu innanstokksmuni. Það getur kostað stórfé að laga þessi skemmdarverk, að ekki sé talað um sjónmengunina af þessu,“ segir Axel.
Og Vilhjálmur nokkur er á svipuðum slóðum. „Hef reyndar gengið fram á taggara [ekki veggjakrotara – enda ekki um veggjakrot (graffiti) að ræða, bara krot. Einn meðal annars á miðjum Laugavegi í björtu á föstudegi. Þetta voru engin börn að sjá, heldur aumir „karlungar“ yfir tvítugt og jafnvel komnir yfir þrítugt. Óþolandi skemmdarvargar – þeirra kroti á ekki að rugla saman við veggjakrot í fagurfræðilegum skilningi – enga meira í ætt við hunda sem merkja sér svæði með hlandlykt,“ segir Vilhjálmur.
Ragnhildi finnst verst hversu hæfileikalausir veggjakrotarnir eru. „Það er sérstaklega glatað hve hæfileikalaust þetta lið er sem hefur þessa líka ríku tjáningarþörf að krota út um allan bæ. Þetta væri þolanlegra ef það væri vottur af hæfileikum en nei, ekki er það svo gott,“ segir Ragnhildur.
Daníel er sannarlega ekki sáttur. „Við þurfum að taka höndum saman og drepa svona menn. Við sem miðborgarbúar þurfum að standa saman!!,“ segir Daníel.
Sigrúnu Dóru finnst umræðan ganga of langt. „Það sprautaði einhver á hurðina! Framdi skemmdarverk. Er það ekki nóg? Þarf að draga foreldra inní þetta og læti? Ég ber ekki ábyrgð á hegðun annara sama hverjir það eru. Ég ber ábyrgð á börnunum mínum þegar þau hafa ekki aldur né vit að ganga ein um göturnar. Ég þekki fullt af prýðisfólki sem samt á börn sem gerðu rangt. Líka fullt af börnum sem gera rangt og kenna foreldrum sínum um til að forðast ábyrgð. Þarna er ábyrgðin líka þín að ætlast ekki bara til að fólk (börn unglingar fullorðnir) láti þitt i friði, Ef þú tryggir ekki húsið þitt og það brennur. Þá er alveg sama hver eða hvað kveikir í því, þú getur ekki grenjað að fá það ekki bætt ef það var ótryggt. Ekki satt? Ef þig vantar vitni eða að þetta sé rannsakað leitaðu til lögreglu. Ekki vaða á netið með fordómafulla ræðu um illa gefna foreldra þess sem gerði þetta,“ segir Sigrún.