Gott sparnaðarráð er gulls ígildi. Mannlíf deilir hér með lesendum hvorki meira né minna en 25 ráðum sem munu spara fólki frá tugum þúsund og upp í hundruð þúsunda króna á ári. Hjá mörgum fjölskyldum skiptir hver króna máli og eftir að Kórónaveiran hóf að herja á heiminn hafa margir orðið atvinnulausir eða tekjur dregist saman. Það er því aldrei mikilvægara að kunna listina að spara.
Það skiptir engu hversu margar krónur eru í buddunni, allir græða á Sparnaðarráðum Mannlífs! Sparnaðarráðin eru fengin héðan og þaðan en flest eru að finna í ört stækkandi og einni allra skemmtilegustu grúppu sem er að finna á samfélagsmiðlum: Sparnaðar tips á Facebook. Mannlíf mælir með að lesendur geri sér ferð þangað næst þegar þeir bregða sér á flakk á veraldarvefnum. Mannlíf birtir hér 25 frábær sparnaðarráð og bætir um betur á morgun þegar 25 ráð til viðbótar verða til umfjöllunar. Ekki hika við að kommenta þínum bestu ráðum undir úttektina eða senda okkur línu með því að smella HÉR. En kíkjum á Bestu sparnaðarráðin fyrir árið 2021!
Sparnaðarráð Mannlífs fyrir árið 2021
Komdu þér upp heimarækt í bílskúrnum eða einu herbergi í íbúðinni. Borgaðu þér 300 krónur fyrir hverja æfingu. Hluta af upphæðinni getur þú svo notað til að bæta við í einkraræktina. Plúsinn: Þú bæði sparar líkamsræktarkortið og fjárfestir um leið í heilsu og æfingatækjum.
Bakaðu brauðið heima. 16 kílóa sekkur af brauðhveiti kostar 2700 krónur í Costco. Plúsinn: Nýtt og heitt brauð bragðast alltaf betur. Æfingin skapar bakarameistarann og að baka er fín hugleiðsla.
Afþakkaðu fjöldapóst. Plúsinn: Þú freistast þá ekki og losnar við tuð í krökkunum sem vilja eignast einhvern óþarfa.
Meðlimur í Sparnaðartips grúppunni deilir eftirfarandi ráði: „Ég kaupi hakk í miklu magni í Costco og frysti í glerkrukkum sem falla til. Ég er með hund á hráfóðri og þarf mikið hakk fyrir hann og endurnota þannig krukkur í staðinn fyrir að nota plastpoka.“
Fjárfestu í hjóli og athugaðu sölusíður og Góða hirðinn áður en nýtt hjól er keypt. Hjólaðu svo í búðina. Plúsinn: Þú getur ekki keypt nema það allra nauðsynlegasta til að bera á hjóliu. Þú tæktar um leið líkamann.
Byrjaði að strika af jólagjafalistanum á útsölum í janúar. Plúsinn: Þú sparar mikla peninga og tíma. Þú losnar líka við að fara í Kringluna á Þorláksmessu þar sem vart er þverfótað fyrir fólki og varla hægt að finna bílastæði í verslunarmiðstöðvum eða í miðborginni.
Keyptu handsápu í lítratali og notaðu sápuskammtara. Þetta fæst í Costco, Krónunni og víðar. Plúsinn: Mun ódýrara og engin plastsóun.
Heill kjúklingur er mun ódýrari en kjúklingabringur. Plúsinn: Minni matarsóun.
Stofnaðu sparnaðarreikning og gefðu honum nafn. Þú gætir verið með reikning fyrir hluti sem bila á heimilinu og eingöngu tekið út þegar hlutir virka ekki lengur.
Mikilvægi þess að fara eftir innkaupalista er margþættur. Þau sem lenda í því að þurfa að skjótast reglulega eftir einhverju sem gleymdist, svo sem mjólk, rjóma, kartöflur, æi, þið vitið, þessir litlu hlutir. Slíkar ferðir geta verið dýrar, sérstaklega eftir að kaupmaðurinn á horninu lagðist af. Bílferð þýðir bensínkostnaður í skottúra. Plúsinn: Minna slit á bílnum og meiri tími til að sinna öðrum hlutum.
Hafir þú tök á að fjárfesta í rafmagnsbíl eða rafmagnshjóli, þá segir það sig sjálft, að slíkt sparar mikla peninga. Plúsinn: Það er umhverfisvænt.
Á Facebook má finna fjölmarga fría viðburði. Leiksýningar, tónleikar, myndlistarsýningar. Listinn er endalaus. Plúsinn: Mörg börn elska leikhús og frábært fyrir fjölskylduna að fara saman og rækta samband foreldra og barns.
Fáðu tilboð í tryggingar. Það er endalaust af sölumönnum þarna úti sem vilja gera þér betra tilboð.
Sumir búa til uppþvottavélarduftið sjálf. Á Sparnaðartips á Facebook er þessi ráðlegging frá Þórunni: „Ég bý til uppþvottarvélarduftið sjálf úr matarsóda, salti og sítrónusafa ásamt ilmolíum, en þeim má sleppa. Nota borðedik sem gljáa í uppþvottavélina. Kostar mig nokkra aura að þvo eina vél.“
Keyptu fyrir vikuna eða mánuðinn eftir matseðli heimilisins. Plúsinn: Þú eða fjölskyldan munt borða fjölbreyttari fæði og spara tugi þúsunda árlega.
Geymdu kjötvörur og fisk í mismunandi FJÖLNOTA pokum í frystinum. Blár poki getur verið fyrir fisk, gulur fyrir ávexti, rauður fyrir kjötið. Plúsinn: Þetta sparar meira tíma en aura og er gott fyrir skipulag og vörutalningu.
Aldrei henda mat og hafðu afgangadag einu sinni í viku.
Klassíska ráðið sem við höfum heyrt og fylgt okkur frá æsku: Gos og nammi, bara á laugardögum. Kex bara í kaffitímanum, þegar búið er að fá sér brauðsneið.
Þekkir þú bónda eða þekkir þú einhvern sem þekkir bónda? Keyptu skrokka af kjöti á haustin. Á Sparnaðar tips er þessa ráðleggingu að finna:
„Ég kaupi folaldaskrokk í október og það er um 50 þúsund krónur. Ég þarf svo ekki að kaupa kjöt í tæpt ár.“
Áður en keyptir eru nýir fótboltaskór, kuldaskór eða jafnvel reiðhjól, taktu þá fyrst snúning á sölusíðum á Bland.is, Facebook, Extraloppan, netbásinn.is eða kíktu á nytjamarkaði. Plúsinn: Oft líta hlutirnir þar eins og nýir.
Farðu aldrei svöng eða svangur í Bónus. Það margfaldar líkur á að ýmisskonar óþarfi endi í matarkörfunni.
Keyptu kjöt sem er að renna út á afslætti og hentu í frystinn.
Ef þú eldar stærri skammta getur þú tekið afganginn og fryst. Plúsinn: Ótrúlega þægilegt þegar maður nennir ekki að elda og mun ódýrara en skyndibiti.
Gerðu innkaupalista og þú sparar tugi þúsunda á ársgrundvelli. Plúsinn: Rannsóknir benda til að fjölskylda spari um 10 % á mánuði ef þeir halda sig við listann. Án lista ert þú mun líklegri til að versla óþarfa við kassann. Sérfræðingar segja að þau sem haldi sig við lista í hvert sinn spari vel yfir 100 þúsund árlega.