Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Guðmundur gladdi smástelpur í smáíbúðahverfinu: „Þá er þetta handa þér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðmundur Valur Viðarsson, íbúi í smáíbúðahverfinu, upplifði skemmtilegt augnablik með ungum stelpum úr hverfinu sem bönkuðu upp á. Eftir heimsóknina gladdi það hann að horfa á eftir stelpunum hoppandi kátar.

Guðmundur lýsir fallegri heimsókninni í færslu inni í hverfihópi á Facebook. Svona hljóðar lýsing hans:

„Það var bankað á dyrnar. Á leiðinni niður tröppurnar velti ég fyrir mér hvort ég gæti gert dyrabjölluna sýnilegri. Fyrir utan standa þrjár stelpur, sex ára eða svo.

„Hæ. Um, hérna við erum að selja nammi.“
Forsprakkinn veifar litlum plastpoka með súkkulaðikúlum og hnippir svo í vinkonu sína að gera það sama. Ég brosi.
„Jæja? Og hvernig gengur?“
„Uh, sko. Þetta er sko fyrsta húsið.“
„Já, ég skil. Og hvað kostar svona poki?“
Það kemur örlítið fát á stelpurnar og þær sem halda á pokunum stinga saman nefjum. Eftir smá skraf snúa þær sér aftur að mér.
„Um hun- hérna, bara hundraðkall.“ segir önnur.
„Eða eitthvað.“ leggur hin til.
Ég bið þær að bíða í smá stund á meðan ég athuga hvað ég á til. Þær ljóma. Þegar ég kem niður aftur standa þær í þröng við dyrnar. Ég hafði talið saman þrjá hundraðkalla og þrjúhundruð krónur í tíköllum. Það er skemmtilegra að taka við lúkufylli þegar maður er sex ára.
„Þetta er handa þér“ segi ég og rétti þeirri fyrstu 200kr „og þetta er handa þér.“ bæti ég við og ætla að gefa þeirri næstu. Hún heldur að sér höndum.
„Nei, ég er bara með, sko. Þær eru með nammið.“
„En þú ert líka með þeim úti í kuldanum, að ganga á milli húsa, er það ekki?“
„Jú.“ svarar hún, hugsi.
„Þá er þetta handa þér.“
Hún réttir fram hendurnar og tekur við peningunum. Hinar tvær pískra saman, stóreygar.
„Og þetta“ segi ég og sný mér að þeirri þriðju sem stendur skælbrosandi með útréttar hendur „er handa þér.“
Þær þakka fyrir sig, hver í kapp við aðra og snúa sér við.
„Ó! Hérna.“ segir sú sem fyrst hafði talað og snýr sér aftur við. Hún réttir mér pokann, brosir enn breiðar og fer svo skoppandi og skríkjandi með vinkonum sínum. Það er gaman að vera til,“ segir Guðmundur.
Margir íbúar hverfisins hafa ánægju af frásögn Guðmundar. Harpa nokkur er ein þeirra. Fallegt. „Mikið eru þær ánægðar, valhoppandi saman,“ segir Guðmundur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -