Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins og oddviti í Norðausturkjördæmi, hefur ákveðið að hætta á Alþingi vegna veikinda sinna en hún hefur glímt við krabbamein.
„Meinið hefur tekið sig upp að nýju en brýnt er að vera bjartsýn. Maður verður alltaf að horfa fram á við. Og maður má aldrei missa vonina. Aldrei. Framboð til Alþingis verður hins vegar að bíða betri tíma. Ég mun því ekki gefa kost á mér til að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi alþingiskosningum,“ skrifar Þórunn á Facebook.
Þórunn er í helgarviðtali Mannlífs þessa vikuna. Þar lýsti hún baráttu sinni og óttaleysi:
„Ég held að það sé ekkert vont fyrir þann sem deyr. Það er verra fyrir hina. Ég hef þá frekar áhyggjur af fólkinu mínu; þeim sem eru í kringum mig. En ekki af sjálfri mér. Við vitum hvað er að lifa en við vitum ekkert hvað hitt er. Það eina sem við vitum er hvernig er að vera á þessari jörð. Hitt vitum við bara ekkert um. Það getur vel verið að einhver viti það en ég veit það ekki.“