Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að ríkið eigi ekki að segja til um hve margir séu saman í hjúskap. Kvennabúr er líklega þekktast dæmið um slíkt fyrirkomulag og á eftir einkvæni það langalgengasta á heimsvísu, sérstaklega meðal múslíma og mormóna. Því er ekki furða að Margrét Friðriksdóttir sé uggandi.
Vísir greinir frá tillögu Björns um að breytingar verði gerðar á hjúskaparlögum. Björn skrifar ennfremur pistil á Kjarnanum um málið. Hann spyr ítrekað af hverju ekki í pistlinum. „Fyrir um áratug var hjúskaparlögum breytt þannig að hjúskapur eða skráð sambúð væri á milli tveggja einstaklinga óháð kyni. Hér er bætt við að slíkur samningur sé óháður fjöldatakmörkunum af hálfu hins opinbera. Þrír í hjúskap? Af hverju ekki? Fjórar að ættleiða saman? Af hverju ekki? Fimm í sambúð sem bera sameiginlega ábyrgð á leigusamningi, af hverju ekki? Af hverju ætti ríkið að ákveða hverjir geti gert með sér slíka samninga?“
Það má segja að Margrét Friðriksdóttir, stjórnandi Stjórnmálaspjallsins, geri tilraun til að svara þessu. „Í Danmörku hefur þetta verið vandamál meðal múslima sem að eiga 3-4 eiginkonur og eignuðust 20-30 börn með þeim og voru að fá barnabætur fyrir milljónir á mánuði, vegna þessa vandamáls er búið að setja þak á barnabætur þar og nú greiða danir einungis barnabætur með hámark 3 börnum. Vill Björn að stefni í þetta óefni eða hvað eru píratar að leitast eftir með þessari tillögu?,“spyr hún á móti.