Alvarleg árás átti sér stað í Borgarholtsskóla í hádeginu fyrr í dag. Voru sex nemendur fluttir á spítala. Þeir voru ekki alvarlega særðir. Ekki hefur verið alveg ljóst hvers vegna árásin átti sér stað. Nú hefur Ársæll Guðmundsson, skólastjóri varpað ljósi á málið í bréfi sem hann sendi foreldrum skólans. Þar kemur meðal annars fram að um hafi verið að ræða uppgjör á milli hópa sem upphaflega átti að fara fram á öðrum stað á höfuðborgarsvæðinu.
Í bréfinu segir að þeir sem báru hnífa eru ekki nemendur skólans. Ársæll segir:
„Ofbeldismenn mættu í skólann vopnaðir hnífum, hnúajárnum og hafnaboltakylfu í einhverju að því er virðist uppgjöri sem okkur skilst að hafi átt að fara fram allt annars staðar. Vitað er að ofbeldismennirnir sem báru hnífa eru ekki nemendur skólans en málið er í rannsókn hjá lögreglunni og mun skýrast á næstu dögum.“
Þá útskýrir Ársæll af hverju nemendum var haldið innandyra og hleypt út í hollum.
„Þar sem einn ofbeldismannanna komst undan á hlaupum var allt kapp lagt á að koma nemendum í öruggt skjól með því að halda þeim í stofum og senda þá heim í hollum. Skólinn var rýmdur meðan sérsveit lögreglunnar var á staðnum,“ segir Ársæll og bætir við:
„Við erum öll mjög miður okkar vegna þessa atburðar en erum staðráðin í því að láta hann ekki eyðileggja fyrir okkur frábært skólastarf Borgarholtsskóla og halda áfram skólastarfinu þegar á morgun. Nemendum stendur til boða áfallahjálp sérfræðinga og hafa þeir aðgang að þeim allan daginn í stofum 103 og 105. Hvet ég ykkur til að ræða þennan atburð heima og alla nemendur til að sækja skólann á morgun skv. stundaskrá og hika ekki við að ræða við sérfræðingana frá Miðgarði, námsráðgjafa skólans, kennara, umsjónarkennara og stjórnendur um þennan atburð, sérstaklega þeim sem líður illa. Kennarar munu ræða þennan atburð við nemendur sína á morgun en það er mjög mikilvægt að eiga samtalið.“
Ofbeldið má ekki sigra
Þá geta nemendur sótt þær skólatöskur sem urðu eftir á morgun. Þá verður aðeins hægt að ganga inn um aðalinngang skólans og þess sérstaklega gætt að óviðkomandi komist ekki inn í skólabygginguna. Þá segir Ársæll að lokum:
„Við viljum þakka nemendum fyrir yfirveguð viðbrögð í dag og leggjum ríka áherslu á að ofbeldið má ekki ná að sigra í okkar góða samfélagi.“