Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú, er ekki aðdáandi núverandi forseta Bandaríkjanna. Hún er óhrædd við að viðurkenna það.
Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, vandar Donald Trump Bandaríkjaforseta, ekki kveðjurnar í nýrri bók sinni, Becoming. Í bókinni lýsir hún því meðal annars hvernig hún „hætti að reyna að brosa“ í kringum Trump á opinberum viðburðum á einhverjum tímapunkti, svo illa líkar henni við hann.
Í bókinni segir hún einnig frá því að hún hafi aldrei fyrirgefið Trump vegna ummæla sem hann lét falla árið 2011, þegar Obama var forseti. Þá greindi Trump frá því í viðtali við þáttinn Fox and Friends, að hann efaðist um að Obama væri fæddur í Bandaríkjunum og ætti því ekki að vera forseti. Þá sagðist hann vera undrandi á því að Obama gæti ekki sannað að hann væri fæddur í Bandaríkjunum með því að sýna fram á það með fæðingarskírteini.
Michella segist aldrei ætla að fyrirgefa Trump þessi ummæli. Frá þessu er greint á vef Business Insider.
Þess má geta að sjónvarpskonan og lestrarhesturinn Oprah Winfrey er búin að lesa bók Michelle tvisvar og gefur henni hæstu einkunn.