Jógakennarinn Jessamyn Stanley hefur sett sér það markmið að berjast gegn fitufordómum. Hún segir fólk af öllum stærðum og gerðum geta verið hraust.
Bandaríski jógakennarinn Jessamyn Stanley er afar vinsæl á samfélagsmiðlum en hún er mikil talskona líkamsvirðingar og sjálfsástar. Á samfélagsmiðlum minnir hún fylgjendur sína reglulega á að allir geta stundað líkamsrækt og verið hraustir, óháð holdafari, þyngd og líkamsbyggingu. Sjálf er Stanley í yfirþyngd.
Hún segir algengt að unglingsstelpur í yfirþyngd tali við hana eftir jógatíma sem hún kennir og tjái sig um hvað hún hefur hjálpað þeim mikið við að koma út úr skelinni. „Það fær virkilega á mig vegna þess að mér sjálfri leið svo illa á þessum aldri. Ég var ekki ánægð með að vera á lífi. Núna koma stelpur upp að mér og leita ráða,“ sagði Stanely í viðtali við The Guardian.
Stanely hefur sett sér það markmið að vekja fólk til umhugsunar og sporna gegn fitufordómum og mýtum um holdafar. Hún tekur fram að það geti tekið langan tíma en að hún sé tilbúin að leggja sitt af mörkum því margt smátt geri eitt stórt. Áhugasamir geta fylgst með Stanley á Instagram undir notendanafninu mynameisjessamyn.
Mynd / Skjáskot af Instagram