Svavar Gestsson, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, þingmaður, ráðherra og sendiherra, lést á gjörgæsludeild Landspítalans í nótt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum.
Eftirlifandi eiginkona Svavars er Guðrún Ágústsdóttir, áður forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Börn Svavars eru Svandís, Benedikt og Gestur og börn Guðrúnar eru Ragnheiður, Árni og Gunnhildur. Svandís er nú heilbrigðisráðherra.
Hann var þingmaður Reykvíkinga 1978 til 1999 fyrir Alþýðubandalagið og svo Samfylkinguna. Hann var ráðherra í mörg ár og í mismunandi ráðuneytum: Viðskiptaráðherra 1978–1979, félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1980–1983, menntamálaráðherra 1988–1991.
Svavar var formaður þingflokks Alþýðubandalagsins og óháðra á árunum 1995 til 1999.