Perla Dís Bachmann Guðmundsdóttir lést af völdum nær ótrúlegs magns fíkniefna á heimili kærasta síns. Hún var einungis 19 ára. Krufning leyddi í ljós að í blóði hennar var tíu- til tuttugufaldur dauðaskammtur af fíkniefninu MDMA. Það er talið nánast óhugsandi að nokkur geti tekið svo gífurlega mikið magn fyrir slysni.
Kveikur á RÚV mun fjalla um málið í kvöld en þar kemur fram að þrátt fyrir niðurstöðu krufningar hafi lögregla rannsakað málið illa. Nefnd um eftirlit með lögreglu og ríkissaksóknari tók málið fyrir og komst að því að alvarlegir misbrestir hefðu orðið á rannsókn.
Lögregla komst til að mynda ekki að því hvenær hún lést og hvort kærastinn hafi verið hjá henni þegar hún dó. Spurningunni um hvernig allt þetta magn MDMA komst í líkama hennar er enn ósvarað.
Í Kveik er rætt við móður hennar, Kristínu Birtu Bachmann, sem segir andlát hennar hafa verið eins og þruma úr heiðskíru lofti því Perla hafði verið edrú í aðdraganda andlátsins. Það var hádegi þegar sími Kristínar hringdi: „Og ég svara, bara halló. Kristín Birta? Já. Móðir Perlu Dísar? Já. Hún er látin. Ég alveg ha? Hún er látin. Ég bara, ha, er hún dáin?“