Rithöfundurinn, mannvinurinn, hugsjónakonan, hjúkrunarfræðingurinn, tónlistarkonan, læknaritarinn og útvarpskonan Heiðdís Norðfjörð er látin. Heiðdís fæddist á Akureyri 21. desember 1940. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð 7. janúar 2021 og var því nýorðin áttræð er hún andaðist.
Heiðdís var áberandi í íslensku samfélagi á árum áður. Hún skrifaði fjölmargar bækur og svo las hún með sinni fögru og seiðandi rödd sögur inn á kasettur. Margir þekkja það án efa að hafa sem börn sofnað út frá rödd hennar og kannast við Pílu pínu músastelpu. Heiðdís syngur texta Kristjáns frá Djúpalæk um Pílu pínu sem er löngu orðin klassík.
Hljótt er nú í húsum inni
Harmur býr í allra sinni
Hvar er litla Píla Pína
Sárt er að missa sína.
Rætist óskir hennar heitar
hún það finni sem hún leitar
Komdu aftur Píla Pína
Sárt er að missa sína
Heiðdís giftist 1.12. 1959 Gunnari Jóhannssyni og eignuðust þau synina Gunnar, Jón Norðfjörð og Jóhann V. Norðfjörð.
Píla pína slær í gegn
Heiðdís skrifaði sögur fyrir börn og unglinga og út komu nokkrar barnabækur eftir hana. Hún var dagskrárgerðarmaður hjá RÚV og var þá m.a. með morgunstund barnanna. Til eru margar hljóðupptökur með upplestri hennar.
Heiðdís útskrifaðist sem sjúkraliði árið 1975 og starfaði við Elliheimilið í Skjaldarvík sem hún veitti síðan forstöðu í allmörg ár. Þá starfaði hún sem læknafulltrúi við embætti héraðslæknis Norðurlands eystra og var síðar læknaritari á heilsugæslustöðinni á Akureyri um langt árabil.
Heiðdís orti einnig ljóð og samdi tónlist og þótti góður píanisti. Þekktust eru lög Heiðdísar við ævintýrið um Pílu pínu eftir Kristján frá Djúpalæk. Seinna skrifaði Heiðdís leikrit við söguna um Pílu pínu sem var sviðsett af Leikfélagi Akureyrar 2016 í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Menningarhúsið Hof.
Margverðlaunuð
Heiðdís var mikill mannvinur og vildi þessa merki kona láta gott af sér leiða. Þannig var hún um árabil meðhjálpari við Akureyrarkirkju og lengi þátttakandi í kórstarfi.
Árið 2007 fékk hún viðurkenningu frá Beta-deild Alfa Kappa Gamma á Akureyri fyrir framlag til menningar og menntunarmála barna. Einnig fékk hún viðurkenningu Menningarsjóðs Akureyrar 2010 fyrir mikilvægt framlag til menningarlífs á Akureyri.
Rappaði fyrir barnabörnin
Heiðdís reyndist börnum sínum og barnabörnum vel og þá fann Heiðdís upp á ýmsum leiðum til að kenna þeim námsefni, ef svo bar undir en nafna hennar lýsir því á eftirfarandi hátt:
„Mér gekk ekki vel að leggja margföldunartöflurnar á minnið fyrr en þú sagðir að ég ætti bara að syngja þær! Ég hélt nú ekki! Glætan! „Jú! Þú getur meira að segja rappað þær!“ sagðir þú og gerðir þér lítið fyrir og rappaðir sex-sinnum-töfluna. Auðvitað hafðirðu rétt fyrir þér. Töflurnar lögðust á minnið, og alltaf sé ég ömmu gömlu fyrir mér að rappa þegar ég þarf að margfalda með sex.“
Hugsónakonan sem vildi bæta heiminn
Þá lýsir Jón Norðfjörð, eða Nonni litli bróðir Heiðdísi með þessum fallegu orðum:
„Hún samdi vinsælar barnabækur og falleg ljóð og hún sá um dagskrárgerð hjá RÚV og ávallt þegar ég heyrði hana lesa upp, komu upp í huga minn upphafsorð ljóðsins um Sólskríkjuna, „Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein“, en rödd Heiðdísar var einmitt svo hugljúf og hrein.“
Anna María, svilkona Heiðdísar segir:
„Heiðdís var einkar fjölhæf og hugmyndarík. […] Einnig las hún inn á snældur „Sögur fyrir svefninn“ sem voru bæði hennar eigin sögur og annarra. Þau eru ófá börnin sem hafa í gegnum tíðina sofnað út frá röddinni hennar fallegu. Platan með lögum og söng Heiðdísar og textum Kristjáns frá Djúpalæk um Pílu pínu músastelpu er löngu orðin klassík og mörg börn hafa grátið fögrum tárum yfir Saknaðarljóði Gínu mömmu.“
Pétur Ingvi Pétursson náinn samstarfsmaður á Heilsugæslustöðinni á Akureyri segir í Morgunblaðinu:
„Sköpunargáfa hennar fékk m.a. útrás í hljóðfæraleik og tónsmíðum, ljóðagerð og ritlist. Hún var frábær upplesari og söngvin að auki. Það var einkar auðvelt að vekja áhuga hennar á nánast hverju sem var, svo lengi sem það samrýmdist siðferðiskennd hennar og lífssýn. Hún var hvers manns hugljúfi og drengur góður.
Minningin um hógværa hugsjónakonu og viðleitni hennar til að bæta heiminn mun lifa með öllum þeim sem þekktu hana.“
Rætist óskir hennar heitar, hún það finni sem hún leitar […] Sárt er að missa sína.