Einari Kárasyni rithöfundi gefur í skyn að undirritaður sé bæði frekur og lyginn. Ástæðan er sú að ég vogaði mér að spyrja hann að því hvort Jón Ásgeir Jóhannesson athafnamaður hafi komið að kostun væntanlegrar bókar um þann síðarnefnda, Málsvörn. Sú bók er auglýst sem uppgjörsbók á umdeildum viðskiptaferli Jóns Ásgeirs.
Ég skrifaði um þetta frétt í morgun, eftir að hafa fengið það staðfest hjá Forlaginu, bókaútgáfunni sem stendur að úgáfu bókarinnar, að Jón Ásgeir hefur kostað verkefnið að einhverjum hluta. Nákvæmlega hve miklu hann kostaði til er enn á huldu ásamt því hvert þeir fjármunir runnu.
Eftir að fréttin birtist brást Einar ókvæða við og birti um samskipti okkar tvær færslur á Facebook. Þær voru nokkuð samhljóma og gríp ég hér niður í síðari færslu rithöfundarins:
„Ég sagði frá því fyrr í dag að í morgun var ég vakinn með símhringingu og á línunni var frekjulegur maður sem ég man ekki hvort kynnti sig en sagðist vera frá Mannlífi. Ég vissi ekkert hvaða fyrirbæri það væri, en sá svo að þetta muni vera vefmiðill, og þar fann ég frétt byggða í símhringingunni, og með fylgdi að hjá Forlaginu h/f hefði fengist staðfesting á dylgjum mannlífsmanna,“ segir Einar og heldur áfram:
„Þar sem þau á Forlaginu eru mínir útgefendur og að þetta snerist um mín persónulegu fjármál sendi ég önugan póst á framkvæmdastjórann. Hann svaraði á þennan hátt: „þetta er uppspuni. þeir hringdu í kynningarstjórann sem sagði ítrekað „ég veit ekkert um þetta, ég veit ekkert um þetta, ég veit ekkert um þetta“ – sem hún gerir heldur ekki. hún var greyið alveg í rusli hér áðan yfir þessu – að henni væru lögð orð í munn og ég trúi henni 100%. sjálfur hef ég engan talað við …“
Í ljósi þess að Einar ævisagnaritari og Forlagið bókaútgáfa saka Mannlíf um uppspuna tel ég rétt að skilja hér eftir afrit af tveimur samtölum. Það fyrra sem blaðamaður átti við Einar sjálfan og það síðara við kynningarstjóra Forlagsins. Það fellur í dóm lesenda hvort blaðamaður Mannlífs gekk of langt í frekjugangi í samtölunum.
Afrit af samtali Mannlífs við Einar Kárason rithöfund:
Einar: Já halló?
Blaðamaður: Komdu sæll Einar, Trausti heiti ég blaðamaður á Mannlífi.
E: Já sæll.
B: Hvað segir þú gott?
E: Bara þokkalegt.
B: Er það ekki bara?
E: Jú jú.
B: Heyrðu, ég er að velta fyrir mér bókinni. Jón Ásgeir, Málsvörnin. Er einhver möguleiki fyrir okkur að komast í eintak hjá þér?
E: Sko, þú verður bara að tala við Forlagið um það.
B: Já.
E: Sem gefur bókina út.
B: Okei, ég skal bara tékka á þeim.
E: Já, hún kemur út í næstu viku.
B: Já, ég vissi það. Ég var bara að spá hvort við kæmumst í hana eitthvað fyrr og fá að rýna í hana.
E: Já, já. Þeir ákveða það.
B: Ekkert mál. Segðu mér eitt Einar, ég var að velta fyrir mér varðandi vinnuna við bókina.
E: Já.
B: Er sú vinna fjármögnuð að einhverju leiti af Jóni Ásgeiri?
E: Eh, þetta er bara samvinnuverkefni þriggja aðila. Mín, Forlagsins og hans. Það er nú bara svona okkar í milli. Það var bara tryggt að allir fengju sitt sko.
B: Já, þannig að hann leggur fjármuni í verkið?
E: Eh, ég er ekki viss um það.
B: Nei. En mér heyrist nú eitthvað á þér að það hafi verið svoleiðis.
E: Ja, það fer nú eiginlega eftir því hvernig það er skoðað. Þetta byggir á sölutekjum. Af hverju hefur þú áhuga á því?
B: Ég er bara að velta því fyrir mér.
E: Já já. Það er svona með vinnu, að það er reynt að sjá til þess að menn hafi í sig og á meðan þeir vinna hana.
B: Jú, jú. Og þannig að hann hefur þá greitt fyrir vinnuna þína?
E: Nei, nei. Það er ekki þannig, Forlagið er útgefandinn.
B: Menn spá, af því þetta er málsvörn, hvort það geti litað skrifin ef hann er að kosta þetta.
E: Sko, ég réði algjörlega því sem ég skrifa.
B: Já.
E: En hvað er þetta Mannlíf?
B: Hvað segiru?
E: Hvað er Mannlíf?
B: Fjölmiðill.
E: Er þetta gamla blaðið, glæsiritið hérna?
B: Nei, það hefur aðeins breyst. Við erum fréttamiðill undir síðunni man.is.
E: Okei, og hver kostar það?
B: Það heitir Man útgáfufélag, heitir fyrirtækið.
E: Og þú er sem sagt á mála hjá þeim?
B: Já, ég er fréttastjóri þar.
E: En litar það þá ekki þín skrif?
B: Hvað?
E: Að þú sért kostaður af einhverjum?
B: Ég er ekki að skrifa þeirra hlið. Ég skrifa ekki fyrir eigendurna.
E: Nei, okei. Af því þú gerir ráð fyrir því.
B: Ég sagði reyndar ekki að ég geri ráð fyrir því. Ég sagði að menn velta því stundum fyrir sér.
E: Hvaða menn, leyfðu þeim þá að tala við mig.
B: Já, akkúrat. Ekkert mál, ég bara spyr.
E: Já, heyrðu hérna ég reikna ekki með að þú fáir eintak hjá Forlaginu.
B: Er það ekki?
E: Nei.
B: Meinaru af því ég spurði?
E: Ja bara, mér finnst þetta voða dúbíus yfirheyrslur um hvort ég sé einhvers konar leigupenni.
B: Já. Afsakaðu það Einar.
E: Allt í fínu, vertu blessaður.
B: Hafðu það gott, bless bless.
Afrit af samtali Mannlífs við kynningarstjóra Forlagsins:
Í upphafi símtals kynnir blaðamaður sig og við ræðum möguleikann á því að Forlagið láti Mannlíf fá eintak af bókinni Málsvörn eftir Einar Kárason. Þegar við urðum ásátt eftir smá stund um það spurði blaðamaður út í hvort Jón Ásgeir Jóhannesson hafi komið að kostun bókarinnar:
Blaðamaður: Bara ein spurning, af því það geta alltaf einhverjir þarna úti velt því fyrir sér hvort Jón Ásgeir hafi mögulega eitthvað komið að kostun bókarinnar.
Kynningarstjóri: Oh, já já, hann gerði það.
B: Hann gerði það, ok.
K: Uhumm.
B: Þannig að hann þá greiðir hvað, hvernig virkar svoleiðis?
K: Sko, ég er ekki alveg viss því þetta er bók sem hefur alveg verið bara hjá svona þeim hæst settustu.
B: Hvað segiru?
K: Þessi bók hefur verið bara undir umsjón þeirra hæst settustu hjá okkur, ekki eins og þegar ég er bara með skáldsögu.
B: Já, já.
K: En ég veit allavega að hann var til staðar við gerð bókarinnar en það voru tekin viðtöl við aðra.
B: En það er ekki þannig að hann sé að greiða rithöfundinum? Er hann að greiða forlaginu?
K: Að greiða?
B: Já, að sem sagt kosta útgáfuna.
K: Ég veit ekkert um það.
B: Nei. Af því að sko þú talaðir um að hann hafi styrkt þetta að einhverju leiti.
K: Já.
B: Ég var bara að pæla í að hvaða leyti. Hvort að það sé til rithöfundarins? Þú þekkir það ekki?
K: Ég er ekki með þær upplýsingar.
B: Nei, nei, ekkert mál. Heyrðu, frábært við hlökkum til að sjá bókina í næstu viku.
K: Okei, frábært.
B: Takk fyrir spjallið og hafðu það gott.
K: Sömuleiðis, bless.
B: Bless bless.