Föstudagur 22. nóvember, 2024
-3.7 C
Reykjavik

Ljósinu varpað á afskipti Rússa

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Afskipti Rússa af forsetakosningunum 2016 voru umfangsmikil og kerfisbundin og miðuðu að því að koma Donald Trump til valda. Þetta er niðurstaða skýrslu sem upplýsinganefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings birti í vikunni og er þetta yfirgripsmesta samantektin um hvernig rússnesk stjórnvöld misnotuðu samfélagsmiðla til að hafa áhrif á niðurstöðu kosninganna.

Skýrslan var skrifuð af Oxford University´s Computational Propaganda Project og greiningarfyrirtækinu Graphika og byggir á gögnum sem Facebook, Twitter og Google létu af hendi. Washington Post fékk drög af skýrslunni í hendur á mánudaginn og birti helstu niðurstöður á mánudaginn. Þær eru í meginatriðum þær að rússneska fyrirtækið Internet Research Agency (IRA) notaði alla helstu samfélagsmiðla – Facebook, Twitter, Instragram, Youtube, Pinterest, Tumblr og Google+ – til að draga taum Donald Trump og Repúblíkanaflokksins, bæði fyrir og eftir forsetakosningarnar. Bandarísk stjórnvöld hafa þegar ákært nokkra starfsmenn IRA fyrir glæpsamlega íhlutun í kosningunum en skýrslan sýnir að afskiptin hafi verið mun víðtækari en almennt var talið.
Rússarnir beindu spjótum sínum fyrst og fremst að tveimur þjóðfélagshópum, íhaldsmönnum annars vegar og blökkumönnum hins vegar og voru skilaboð Rússanna klæðskerasniðin með tilliti til þess. Þannig var því beint að íhaldssömum og hægri sinnuðum kjósendum að fylkja sér að baki Trump og var sérstaklega keyrt á málefnum eins og byssueign og innflytjendum. Að sama skapi voru skilaboðin sem beint var gegn blökkumönnum þess eðlis að rugla þá í ríminu með falsfréttum og fá þá til að missa trú á kerfinu. Þegar nær dró kosningum hófu Rússar að senda út misvísandi leiðbeiningar um hvernig ætti að kjósa. Aðrir þjóðfélagshópar fengu líka sinn skammt af klæðskerasniðnum skilaboðum – múslimar, kristnir, samkynhneigðir, konur og íbúar af spænskum uppruna.

Afskiptin ná aftur til 2013
Skýrslan sýnir að afskipti Rússa hófust svo snemma sem árið 2013. Tíðnin jókst í kringum þingkosningarnar 2014 og tók svo mikinn kipp í aðdraganda forsetakosninganna 2016 og mánuðina þar á eftir. Meginhluti starfseminnar fer fram innan veggja Internet Research Agency (IRA) í Pétursborg, fyrirtækis sem hefur beinlínis það markmið að tala máli rússneskra stjórnvalda og fyrirtækja á Internetinu. Með öðrum orðum „tröllaverksmiðja“. Afskiptin vestanhafs hófust á Twitter áður en þau yfir á YouTube og Instragram og loks Facebook þar sem útbreiðslan var mest.

Náðu til 126 milljóna Facebook-notenda
Á Facebook var megináherslan lögð á að ná til íhaldsmanna og blökkumanna. Á Facebook fór 99 prósent aðgerða Rússa fram í gegnum 20 síður sem báru nöfn eins og „Being Patriotic“, „Heart of Texas“, „Blacktivist“ og „Army of Jesus“. Efnið á þessum 20 síðum náði samanlagt til 126 milljóna Facebook-notenda og fékk efni þeirra deilingar sem náði yfir 31 milljón. Rússar stýrðu einnig 133 Instagram-reikningum með sambærilegum þemum. Árið 2016 deildu þessir reikningar samanlagt 2.600 færslum á mánuði og árið 2017 voru færslurnar orðnar 6.000. Á þeim þremur árum sem skýrslan spannar fengu rússneskar Instagram-færslur 185 milljón „like“ og 4 milljónir ummæla. Ekki bara tókst rússnesku tröllunum að hafa áhrif á hugarfar notenda, heldur náðu þau einnig að kría út fjárframlög og gengu svo langt að skipuleggja mótmæli og aðrar fjöldasamkomur í bandarískum borgum.

Samfélagsmiðlar skaðlegir lýðræðinu
Skýrsluhöfundar gagnrýna harðlega viðbrögð tæknirisana Facebook, Google og Twitter, bæði fyrir hversu seint þeir brugðust við afskiptum Rússa og hversu tregir þeir voru að láta upplýsingar af hendi. Þá er því lýst hversu skaðlegir samfélagsmiðlar geta verið fyrir lýðræðið. Ekki er langt síðan að litið var á þá sem mikilvægt tæki fyrir almenning til að koma skoðunum sínum á framfæri. Jafnvel kúguð alþýða í ráðstjórnarríkjum gat komið af stað byltingu líkt og gerðist í arabíska vorinu. Þetta hefur nú snúist við og í auknum mæli eru stjórnvöld farin að nota miðlana sem kúgunartæki. Þar geta þau bæði safnað persónulegum upplýsingum um borgarana í því skyni að kúga þá sem og misnotað þá til að hafa stjórn á umræðunni og koma áróðri á framfæri.

Reyndu ekki að fela slóðina
Loks er bent á að tæknirisarnir hefðu getað komið í veg fyrir þessa starfsemi mun fyrr. Í það minnsta voru Rússarnir lítið að hafa fyrir því að fela slóð sína. Þannig er greint frá því að Rússarnir hafi kosið að greiða fyrir kostaðar auglýsingar á samfélagsmiðlunum með rúblum og þeir gefið upp rússnesk símanúmer fyrir tengilið. Auk þess var hægt að rekja stóran hluta póstanna til rússneskra IP-talna. Fyrirtækin hafa lýst því yfir að þau hafi gripið til viðeigandi ráðstafana til að sporna gegn rússnesku tröllunum. Þannig kom Facebook upp svokölluðu „stríðsherbergi“ í haust til að fylgjast með mögulegum afskiptum fyrir þingkosningarnar í nóvember. Svo virðist sem Rússar hafi skipt um taktík því afskiptin fyrir þær kosningar voru ekki nándar jafnmikil og árið 2016.

Fleyg ummæli
„Það sem er ljóst að nærri öll þessi skilaboð miðuðu að því að draga taum Repúblíkanaflokksins – einkum og sér í lagi Donald Trump. Trump er nefndur á nafn í flestum þeim herferðum sem beindust að íhaldssömum og hægri sinnuðum kjósendum þar sem skilaboðin voru að þessir hópar ættu að styðja framboð hans. Hjá þeim hópum sem gátu skákað Trump var markmiðið að rugla þá í ríminu, beina athyglinni annað og loks að letja þá til að kjósa.“
Úr skýrslu bandarísku upplýsinganefndarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -