- Auglýsing -
Óveður og ofankoma hefur verið á norðanverðu landinu síðan í gær. Í gærkvöld féllu tvö snjóflóð á Öxnadalsheiði. Hætta þótti vera á frekari snjóflóðum og var heiðinni lokað. Björgunarsveitir voru kallaðar út til hjálpar fólki í 15 bifreiðum sem voru fastir sitt hvorum megin við flóðið. Þrír bílar voru skildir eftir á heiðinni. Björgunaraðgerðum á heiðinni lauk laust eftir klukkan 1 í nótt. Engan sakaði. Í morgunsárið verða aðstæður á heiðinni kannaðar. Nokkuð var um að björgunarsveitir á Norður- og Austurlandi væru kallaðar til aðstoðar ökumönnum í vanda.
Fjallvegir á norðanverðu landinu eru víðast lokaðir og ferðalangar víða innlyksa. Þannig munu einhverjir hafa þurft að gista á Hólmavik vegna ófærðarinnar en ófært er á staðinn að sunnan og norðan.
Spáð er áframhaldandi stífri norðanátt í dag og á morgun.