Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

„Konur af erlendum uppruna eru auðlind“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Inga Minelgaite ólst upp í Litháen en flutti til Íslands fyrir fimmtán árum og hefur búið hér og starfað síðan og er nú prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hún segir íslenskt samfélag hafa breyst mikið á þeim tíma sem hún hefur búið hér hvað varðar viðhorf til útlendinga en hana dreymir um að stuðla að því að þau breytist enn meira og þess vegna hefur hún frumkvæði að ýmsum verkefnum og styður aðra.

„Ég flutti hingað tuttugu og fjögurra ára frá Litháen,“ útskýrir hún. „Ég ólst upp í vel menntaðri fjölskyldu þar sem báðir foreldrar unnu í opinbera geiranum, en einnig í eigin rekstri eftir að Litháen fékk sjálfstæði.

Á skólaárunum var ég mjög virk í fjölbreyttum félagstörfum, allt frá því að vera í kirkjukór til þess að vera varaforseti nemendafélags skólans. En mér fannst skemmtilegast í dansi. Ég var, og er enn, mikið náttúrubarn. Átti ýmsar hetjur sem fyrirmyndir sem barn, allt frá Tarzan og Línu Langsokk upp í kvenlegar konur í Hollywood-bíómyndum. Ég er alin upp í litlum bæ í Litháen þar sem allir þekkja alla og líkaði það vel á margan hátt. Á sama tíma var ég ekki feimin við það að rísa upp gegn þeim viðhorfum að reyna að gera alla eins.“

Dvaldi aldrei við fordóma

En hvað með fordóma varðstu mikið vör við þá? „Ég dvaldi aldrei mikið við fordóma. Ég sá eða heyrði nokkur ummæli sem mér fundust óviðeigandi, en ég kippti mér ekki sérstaklega upp við það og lét það ekki hafa mikil áhrif á mig. Ákvað að gera frekar eitthvað til að hafa jákvæð áhrif. Ég stofnaði til dæmis litháískt-íslenskt félag á Íslandi. Margir menningarviðburðir voru skipulagðir þar sem íslenskir listamenn fóru til Litháen og Litháar komu hingað. Við lærðum til dæmis að prjóna íslenskar lopapeysur með Íslendingum og kenndum Íslendingum að prjóna litháískt prjón. Með stofnun félagsins höfðum við jákvæð áhrif. Svo margt er hægt að gera á þessu sviði og margir vinna að þessu, til dæmis WOMEN, samtök kvenna af erlendum uppruna. Fordómar koma til vegna fáfræði. Með fræðslu minnka fordómar.“

 Skortur á vitund um þá auðlind sem erlendar konur eru

- Auglýsing -

Er það þín reynsla að konur af erlendum uppruna eigi erfitt með að komast í stöður sem þeim hæfa í íslensku samfélagi? „Það væri ósanngjarnt að tala fyrir hönd allra. Auðvitað eru nokkrar hindranir, en ef einhver vill heyra mig kvarta verð ég að valda vonbrigðum. Ég held að stærsta málið sé skortur á vitund varðandi það hve gagnleg auðlind erlendar konur eru: tengslanet þeirra getur verið „hlið“ inn í aðra markaði, sérhæfð þekking þeirra getur brúað núverandi þekkingarbil og svo framvegis. Að skilja það sem auðlind sem allt samfélagið nýtur góðs af myndi leysa mörg mál, eins og skiptingu í „þau“ og „okkur“. Þaðan sem ég stend, sé ég „okkur“. Okkur, sem öll búum í landi þar sem við ölum upp börnin okkar, landi sem hefur náttúru sem við elskum og njótum, landi þar sem framtíðin skiptir okkur öll máli, þetta er landið sem við sýnum gestum okkar með stolti og landið sem við styðjum öll í fótbolta fyrir meistaramót.“

Ýtarlegt viðtal við Ingu um kennsluna í Háskólanum, stjórnunarstíl, það að vera sjálfstæð móðir og fleira er að finna í nýjustu Vikunni. Tryggðu þér eintak.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -