Bútar og brot úr jeppa Filippusar, hertogans af Edinborg, eru nú til sölu á ebay.
Filippus prins, eiginmaður Elísabetar Englandsdrottningar, slapp ómeiddur frá árekstri í síðustu viku en Land Rover-jeppi hans skemmdist töluvert. Þó nokkuð af brotnum bútum og glerbroti varð eftir á vettvangi þar sem áreksturinn átti sér stað, nálægt Sandringham-höll drottningarinnar.
Einhver hefur þá brugðið á það ráð að safna saman bútunum af vettvangi til að selja á uppboðsvefnum ebay.
Það er seljandinn morbius777 sem selur hlutina. Á söluvef hans kemur fram að upphæðin muni renna til góðgerðasamtakanna Cancer Research UK.
„Gæti meira að segja haft DNA úr Filippusi, ef þú villt klóna hann eða álíka,“ segir seljandinn meðal annars í lýsingunni.
Núna hljóðar hæsta tilboðið upp á 65.900 pund sem gerir rúmar 10 milljónir króna. Fimm dagar eru eftir af uppboðinu.
Þess má geta að samkvæmt tilkynningu frá konungsfjölskyldunni slapp Filippus ómeiddur en tvær konur sem voru í hinum bílnum voru fluttar á sjúkrahús með minniháttar meiðsl. Samkvæmt frétt Sky News úlnliðsbrotnaði ökumaður hins bílsins og er hún undrandi á að hafa ekki fengið símtal frá Filippusi sjálfum eftir slysið.