Hermann A. Kristjánsson er látinn einungis 54 ára. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans 19. janúar síðastliðinn. Hermann lætur eftir sig eiginkonu og tvo unga syni, sá fyrri fæddur árið 1996.
Það var það ár sem Hermann hætti sjómennsku en í því starfi sigldi hann víða. Hermann ólst upp í Hafnarfirði en flutti til Siglufjarðar árið 2014. Eftir grunnskóla starfaði hann fyrst um sinn hjá Skipasmíðastöðinni Dröfn en þar lærði hann einnig tréskipasmíði. Síðar lærði hann einnig húsasmíði.
Lengst af starfi Hermann við fraktsiglingar hjá Nesskip en það starf dró hann mest til Evrópu. Hermann hætti sjómennsku þegar frumburðurinn fæddist 1996. Eftir það vann Hermann ýmis störf við smíðar, blikksmíði og pípulagnir. Árið 2012 réð Hermann sig til Ístaks þar sem hann starfaði sem verkstjóri þar til yfir lauk.
Faðir Hermanns skrifar hjartnæma minningargrein um hann. „Það er sagt að foreldrar eigi ekki að þurfa að fylgja börnum sínum til grafar. Það er ekki þannig í köldum raunveruleikanum. Sonur minn, Hermann Andrés Kristjánsson, verður jarðsettur í dag, 27. janúar 2021. Hann fékk mikla heilablæðingu og þrátt fyrir að komast fljótt í hendur færustu lækna var lítið hægt að gera og hann lést á gjörgæslu 19. janúar. Öllu því frábæra fólki sem kom að umönnun Hermanns færi ég þakkir fyrir einstaka fagmennsku og nærgætni,“ segir faðir hans sem vonar að hann geti siglt um eilífðarhafið nú:
„Hemmi sagði mér ungur að hann ætlaði að fara á námssamning hjá Dröfn í Hafnarfirði og læra tréskipasmíði hjá öðlingnum Sverri Gunnarssyni, sem borinn var til grafar nýlega. Ég vissi að tréskipasmiðir voru frábærir smiðir en sagði við Hemma að smíði trébáta væri að leggjast af. Hann benti á að hann þyrfti bara að bæta við sig teikningum til að öðlast líka réttindi sem húsasmiður. Þarna mat hann aðstæður rétt þótt ungur væri. Nú geta þeir meistarinn og neminn smíðað sér glæsifley saman og siglt um eilífðarhafið.“