Celine Dion segir manninn, sem margir hafa talið vera kærasta hennar, vera vin sinn.
Söngkonan Celine Dion fullyrðir að hún sé einhleyp og að maðurinn sem hún hefur sést mikið með undanfarið sé besti vinur hennar. Maðurinn sem um ræðir er 34 ára dansari að nafni Pepe Munoz.
Dion missti eiginmann sinn, Rene Angélil, árið 2016 og hefur hún síðan þá varið miklum tíma með Munoz.
„Við erum vinir, við erum bestu vinir. Auðvitað föðmumst við og leiðumst þegar við förum út, og fólk sér það. Ég meina, hann er herramaður,“ sagði Dion í viðtali við The Sun. Aðspurð hvort að hún sé einhleyp sagði hún: „já, ég er það.“
Dion sagði þá að það truflaði hana ekki að fólk héldi að hún og Munoz ættu í ástarsambandi. „Mér er alveg sama vegna þess að hann er myndarlegur og besti vinur minn.“
Þess má geta að Munoz er margt til lista lagt því til viðbótar við að vera góður dansari er hann líka hæfileikaríkur tískuteiknari eins og sjá má á myndum sem hann birtir á Instagram.