Kjarninn fór í byrjun árs 2019 fram á að fá aðgang að þeim úttektum sem Fjármálaeftirlitið gerði á bönkunum þremur varðandi varnir gegn peningaþvætti frá árinu 2006 og fram að hruni. Auk þess var óskað eftir því að fá allar aðrar skýrslur, drög eða úttektir sem gerðar voru um saman efni.
Ástæðan var tvíþætt. Í fyrsta lagi hafa þær upplýsingar sem fram hafa komið um starfsemi Kaupþings, Landsbanka Íslands og Glitnis á síðustu árum; í rannsóknarskýrslum, dómsmálum og fjölmiðlaumfjöllun, sýnt að þótt íslensku bankarnir þrír hefðu allir á sér yfirbragð faglegra fyrirtækja var umsjón og eftirlit með útlánum lélegt og ófaglegt.
Í raun má segja að hvatinn til að vaxa hafi verið miklu sterkari en hvatinn til að byggja upp stöndug fyrirtæki. Því var til staðar freistnivandi um að hefja viðskipti við viðskiptavini sem ekki störfuðu að öllu leyti löglega.
Í öðru lagi hafa nokkrir stórir bankar í nágrenni Íslands verið bendlaðir við stórfellt peningaþvætti. Í fyrra var það Danske Bank og þvætti í gegnum eistneskt útibú bankans á árunum 2007 til 2015. Hinn sænski Swedbank átti einnig aðild að því máli. Svo var framkvæmd húsleit í höfuðstöðvum Deutsche Bank í nóvember í fyrra vegna grunsemda um peningaþvætti, en sá banki var í miklu samkurli við íslenska banka fyrir hrun og hefur auk þess leikið stórt hlutverk á meðal kröfuhafa föllnu bankanna síðastliðinn áratug. Nýjasta hneykslið snýr svo að Nordea bankanum í Danmörku, sem á að hafa notað auðmannaútibú sitt í Vesterport til að þvætta peninga.
Fyrsta efnislegt svar Fjármálaeftirlitsins barst 24. janúar. Í því er farið yfir þær athuganir sem eftirlitið framkvæmdi á hverjum banka fyrir sig á árunum fyrir hrun hvort þær hafi í raun verið kláraðar svo hægt væri að ganga úr skugga um að áhyggjur FATF væru raunverulegar. Og ef svo væri, hvað þyrfti þá að gera til að bæta úr því. Þá var skýrsla Fjármálaeftirlitsins um Kaupþing afhent að hluta en drög að skýrslu um Glitni og Landsbanka Íslands ekki að svo stöddu.
Kjarninn fór fram á að fá fleiri gögn afhent og barst annað svar 19. febrúar 2019. Með því fylgdi hluti af drögum að skýrslum um frammistöðu Glitnis og Landsbanka Íslands við að verjast peningaþvætti.
Fjallað var ítarlega um hvernig Ísland er í kappi við tímann að sýna alþjóðlegum samtökum að landið sinni almennilegu eftirliti gagnvart peningaþvætti, eftir að hafa fengið falleinkunn í úttekt í fyrra. Hægt að lesa í 10. tölublaði Mannlífs og á vef Kjarnans.
Texti / Þórður Snær Júlíusson