Sænski áhrifavaldurinn Jelly Devote er geysivinsæl á Instagram. Hún tók þá afdrifaríku ákvörðun fyrir sjö árum síðan að minnka áfengisneyslu sína, en hún var vön að drekka með vinum sínum nokkrum sinnum í viku. Í dag fær hún sér eitt til tvö glös aðra hverja viku og breytingin á einni manneskju er mikil.
Það má með sanni segja að Jelly sé allt önnur manneskja í dag og birtir reglulega myndir af sér á Instagram þar sem hún ber sig saman við sitt gamla sjálf.
Í nýlegri færslu segir Jelly að lífið sé allt annað eftir að hún sagði skilið við Bakkus.
„Mér hefur aldrei liðið betur, ég er í jafnvægi. Ég get borðað kleinuhring og síðan salat. Ég drekk ekki oft áfengi, ég fæ mér vatn og það sem mikilvægast er: Ég fór frá því að hata sjálfa mig yfir í að elska sjálfa mig,“ skrifar Jelly.
Hún segist ekki vita hvað hún hafi misst mörg kíló á þessum sjö árum þar sem hún vigti sig ekki, en bætir við að hún hafi verið 45 kíló þegar hún var léttust sem er ekki heilbrigt. Hún brýnir fyrir aðdáendum sínum að einblína ekki á töluna á vigtinni heldur andlega líðan.
„Partílífið er ekki fyrir mig! Ég vil frekar vera í strigaskóm en háum hælum og ég drekk frekar próteindrykki og ávaxtasafa en kampavín.“