Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, dásamar íslenska heilbrigðiskerfið í löngum pistli á Facebook. Þingmaðurinn fékk nýjan gervilið í vinstra hné og í pistlinum lýsir hann ferlinu nokkuð ítarlega og sparar ekki lofsyrðin. Sigurjón M. Egilsson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins og eigandi Midjan.is gagnrýnir skrif þingmannsins harðlega og segir þau gefa kolranga mynd af heilbrigðiskerfinu sem sé yfirfullt.
Ásmundur hitti hjúkrunarfræðing, lækni, svæfingalækni, lyfjafræðing og sjúkraþjálfara, sem allir upplýstu þingmanninn um hvert þeirra hlutverk væri og svöruðu spurningum hans. Þá var Ásmundur mænudeyfður og dormaði á meðan aðgerðinni stóð.
„Ég fékk frábæra umönnun, góðan mat og afar faglega var staðið að öllu sem snéri að veru minni á Landspítalanum. Við eigum frábært heilbrigðisstarfsfólk sem gerir heilbrigðiskerfið eitt það besta á hvaða kvarða sem það er borið saman við,“ segir Ásmundur í pistlinum og þakkar heilbrigðisstarfsfólki að hann eigi bærilegt líf framundan.
„Ég er fullur þakklætis til heilbrigðisstarfsfólksins okkar fyrir öll afrek þeirra.“
Hinn þaulreyndi fjölmiðlamaður, Sigurjón M. Egilsson sem stýrir Midjan.is segir pistilinn gefa ranga mynd af heilbrigðiskerfinu. Sigurjón talar af reynslu en hann er öryrki eftir mótorhjólaslys sem átti sér stað fyrir rúmum fimm árum og er enn að reyna ná fullum bata. Hann segir að þegar íslenska heilbrigðiskerfið er annars vegar, þá sitji ekki allir við sama borð.
„Margt hefur verið reynt. Reykjalundur var það besta. Svo kom að verkasviði Landspítalans. Fyrir um ári var reynt að sprauta sterum þar sem verkirnir myndast. Það dugði örfáa daga. Þá var næst að reyna einhverskonar rafaðgerð,“ segir Sigurjón og bætir við: „Svo kom Covid. Það var hringt og sagt að þess vegna yrði að fresta „aðgerðinni“. Ég beið og ég beið og ég beið.“
Sigurjón segir að þegar hann loksins heyrði frá spítalanum, hafi það eingöngu verið til að tjá honum að læknirinn sem hann hafði svo lengi beðið eftir, væri hættur störfum. Þá fékk hann þau tíðindi að annar læknir myndi taka við honum og af því fengi hann fregnir síðar.
„Nú bíð ég og bíð ég og bíð ég.“
Sigurjón segir verkina ekkert hafa lagast á öllum þessum árum. Biðin og stöðugir verkir hafa tekið sinn toll og hafa sjálfsvígshugsanir sótt á hann þegar hann finnur hvað mest til.
„Þegar verkirnir verða hvað verstir hugsa ég mér hvort ekki sé léttast að hætta þessu bara. Stökkva fyrir björg. En það er ábyrgðarleysi. Þannig hugsunum verður að ýta frá sér. Þær er samt ekki hægt að deyða. Þær koma aftur og aftur og aftur,“ segir Sigurjón og telur heilbrigðiskerfið og biðlista koma verst niður á þeim sem búa ekki við sterka félagslega eða fjárhagslega stöðu. Hann segir:
„Betra er að segja nei strax en draga fólk á asnaeyrunum í langan tíma.“
Þá segir Sigurjón að lokum:
„Rétt er að óska Ásmundi góðs bata. Samt verður hann að vita að heilbrigðiskerfið er ekki eins stórfenglegt og hann heldur. Alls ekki.“