Vinirnir í Backstreet Boys komu aðdáendum sínum hressilega á óvart í morgun þegar þeir frumsýndu myndband við glænýtt lag sem heitir Don’t Go Breaking My Heart.
Eins og sést í myndbandinu hér fyrir neðan hafa meðlimir drengjasveitarinnar engu gleymt þegar kemur að danstöktum, en myndbandinu var leikstýrt af Rich + Tone sem hafa unnið lengi með sveitinni.
„Um leið og ég heyrði þetta lag vissi ég að það væri sérstakt,“ segir Kevin Richardson, einn liðsmanna í yfirlýsingu sem sveitin sendi frá sér í tengslum við frumsýningu á myndbandinu.
Til að kynna lagið treður sveitin upp víðs vegar í Bandaríkjunum í sumar áður en fimmmenningarnir snúa aftur til Las Vegas og halda áfram með sýninguna Backstreet Boys: Larger Than Life. Sveitin, sem fagnar 25 ára starfsafmæli í ár, gaf síðast út plötu árið 2013, World Like This. Það hefur hins vegar ekkert heyrst af því nýverið að sveitin ætli að gefa út plötu á næstunni.