„Á morgun fyllist Facebook af myndum af börnum í búningum. Það er geggjað. Hluti af Internetinu fer líka í það að vista og viðra skoðanir þeirra sem hata glöð börn eða foreldra þeirra sem birta téðar myndir. Það er sorglegt.“
Þetta segir fjölmiðlamaðurinn og tónlistarmaðurinn Vilhelm Anton Jónsson, oft kallaður Villi naglbítur. Þar sendir Vilhelm fýlupúkum pillu og beinir orðum sínum sérstaklega að þeim sem finna því allt til foráttu að haldið sé uppá t.d. öskudagurinn og Valentínusar vegna þess að þeir séu ekki íslenskir. Við þá vill Vilhelm segja:
„Já það er laukrétt hjá ykkur! Ekki frekar en jólin, páskar eða laugardagur, mánudagur osfrv ef út í það er farið.“ Vilhelm bætir við:
„Ef þið hafið ekkert innihaldsríkara að gera, annað en flexa ykkar kaldhæðni að þið séuð yfir þetta hafin, óska ég ykkur þess að einn daginn megið þið gleðjast. Það er nefnilega geggjað að brjóta upp hversdaginn,“ segir Vilhelm og beinir þessum mikilvægu skilaboðum til allra á samfélagsmiðlum:
„Lifi: gleðin, litirnir, allskonar og allt hitt. Nema þeir sem draga aðra niður. Megi þeir verða fyrstir á botninn og niður svelginn og út hinum megin.“