Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

„Guð bjargaði lífi pabba“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir: Engil Bjart Einisson

Baráttan við þunglyndi

Þjóðinni var brugðið þegar ég opnaði mig um þunglyndi ástkærs föður míns í nóvember hins alræmda árs sem nú er liðið. Þann 21. nóvember 2020, reyndi pabbi að stytta sér aldur í afar átakanlegri sjálfsvígstilraun. Honum var ekkert hálfkák í hug. Hann hafði tekið banvænan skammt af sterkum lyfjum sem hann hafði aðgang að sem læknir og hafði ekið í skjóli nætur út fyrir bæinn – í því augnamiði að flýja fyrir fullt og allt árann sem hafði hrjáð hann í yfir tvo áratugi: Þunglyndi.

Við í fjölskyldunni töldum hann af. Þetta var sorglegasti dagur lífs míns án nokkurs vafa. Lífsreynsla sem ég myndi ekki óska mínum versta óvini að upplifa ef ég ætti óvini. Við pabbi erum ekki bara feðgar og bestu vinir; við erum sálubræður. En pabbi lifði af. Landsmönnum var létt að harmleikurinn hefði sloppið fyrir horn. Markmið mitt með því að opna mig um þetta opinberlega var að hjálpa öðrum þunglyndissjúklingum og aðstandendum þeirra – og þar með hjálpa sjálfum mér að vinna úr áfallinu því ég hef verið sonur þunglyndissjúklings alla mína ævi. Ég þekki hvern krók og kima þessa alvarlega sjúkdóms. Ég veit að hann er ekki uppspuni. En umfram allt veit ég að þjáningu fólks má létta með því að lyfta þögninni og skömminni af þunglyndi. Það er enginn munur á þunglyndi og krabbameini í mínum huga. Fólk hrjáð af þessum sjúkdómum er því miður dauðvona í mörgum tilfellum.

Guðleg íhlutun

Pabbi var vægast sagt dauðvona aðfaranótt þessa átakanlega dags 21. nóvember 2020. En þessi pistill er ekki um dauðann. Hann er um lífið. Það sem fáir fréttu á sínum tíma er að kraftaverk bjargaði pabba. Þið heyrðuð rétt. Kraftaverk frá sjálfum Guði. Hvort sem fólk kýs að trúa því eður ei er aukaatriði því pabbi lifði af. Þetta var ekki hans dagur til að deyja.

Nokkrum tímum eftir að pabbi hafði lagt bílnum úti í móa og ætlað að leyfa lyfjunum að gera sitt, gerðist dálítið. Hann vaknaði. Hins vegar var hann með egghvassan vasahníf með í fórum sem var hans „plan B“ til að kveðja þennan heim og kvalir þunglyndisins með honum. Hann stakk sig þrisvar í hjartastað. Á bólakaf. Svo þung var sorg þessa svæsna sjúkdóms sem of sjaldan er talað um. En á þriðju stungunni kom Sonur Guðs – Drottinn Jesús Kristur – og bjargaði mínum ástkæra föður. Pabbi sá stutta sýn af Jesú og samtímis heyrði hann rödd Hans segja: „Ég er Drottinn.“ Það sem gerðist í kjölfarið var eins og í ævintýri. Björgunarsveitin fann pabba örfáum sekúndum síðar. Hann labbaði sjálfur úr banasætinu og yfir í sjúkrabílinn; lagðist meira að segja hjálparlaust í börurnar.

Líkamlegur bati pabba var ekkert annað en kraftaverk. En það sem meira máli skiptir er hans andlegi bati. Það er mér mikil ánægja að tilkynna að Guð hefur gert mikilfenglega hluti fyrir pabba á liðnum mánuðum. Þunglyndið hans er betra en það hefur verið í yfir tvo áratugi. Og við eigum það engum öðrum að þakka en sjálfum Drottni Jesú Kristi sem greip í taumana á elleftu stundu. Þegar pabbi var allsendis bjargarlaus – svo illa haldinn af þunglyndi að öll von var úti – kom Skaparinn og blés lífi í hann á ný. Það er nefnilega Guð sem hefur vald yfir lífi og dauða. Enginn annar. Við vitum ekki hvenær okkar dagur kemur. En það veit Guð. Og í tilfelli pabba míns, var sá dagur sannarlega ekki 21. nóvember 2020.

Húðflúr til dýrðar Drottins

Margir myndu kappkosta að gleyma þessari átakanlegu dagsetningu. En sakir kraftaverksins sem átti sér stað er allt breytt. Ég lít á þennan dag sem heilagan dag. Þetta er dagurinn sem Drottinn bjargaði besta vini mínum og sálubróður – ástkærum pabba mínum. Þess vegna fékk ég mér í gær húðflúr á hjartað til dýrðar Drottins; á sama stað og hnífsblaðið stöðvaði nærri því hjarta pabba. Ég kalla Drottinn Yeshua frá Nasaret en það er eldri útgáfa af nafni Hans. Húðflúrið verður á hjarta mínu til æviloka rétt eins og þakklætið mun búa mér í brjósti um alla eilífð. Það minnir mig á að kraftaverkin gerast enn. Og það er yfirlýsing mín til allra að von er möguleg fyrir þá sem þjást.

- Auglýsing -

Mig óraði ekki fyrir því að pabbi myndi lifa af – en hann gerði það. Þunglyndi er einn alvarlegasti sjúkdómur sem við þekkjum. Með því að deila sögu minni og pabba, óska ég að færa þunglyndissjúklingum og aðstandendum þeirra innblástur og endurnærða von. Megi vonarneistinn kvikna á ný. Ég veit að Guð vakir yfir pabba mínum og mér. Auðvitað get ég ekki fullyrt fyrir aðra. En ég bið sannarlega fyrir aukinni lífsgleði allra sem orð mín lesa.

Ljóð tileinkað pabba

Ég er rithöfundur og ljóðskáld sem hefur gefið út þrjár ljóðabækur á síðastliðnum þremur árum. Mér fannst við hæfi að deila undir lokin ljóði úr fyrstu bókinni minni Vígslu (2018) sem ber titilinn Pabbaljóð og var einmitt ort til að hressa hann við í baráttu hans við þunglyndið. Síðan þá hef ég sent frá mér bækurnar Ljóðgæti og Frumefni en Pabbaljóð úr frumraun minni Vígslu stendur æ fyrir sínu.

- Auglýsing -

– Engill Bjartur Einisson, 14. febrúar 2021

PABBALJÓÐ

Vandfundinn ert þú, vinur minn,
að víðsýnum manni er leitun
Þótt óvinaþankar æði inn
í huga þinn, gefur þú neitun.
Og þér skilst að hin sjálfstæða gjörð
er sigurspor hverjum sem kýs
að kveðja hina hefðbundnu hjörð
og halda á vit árangurs nýs.

Ég er ungur, en einnig ert þú
í ævi útspringandi blóma.
Vertu sterkur í trygglyndi og trú;
þá týnirðu seint æskuljóma.
„Sækir að hryllileg hrörnun nú,
heyr útfararklukkurnar hljóma.“
Þú ert hálffimmtugur og hana nú!
Hlýddu ei á slíkan hégóma.

Lífið, það blasir við þér svo bjart
og blessunarsamlegt og jákvætt.
Eigi er langt í að lagist margt,
því líf þitt er Guðs blessun gætt.
Víst munu leynast á leið þinni sker;
lærdómur jarðlífsins er það.
En meitt fær þig enginn myrkraher,
meðan Yeshúa Son áttu að.

Síðan áttu eina elskandi frú
er mér hlotnast að kalla móður.
Mun hún þig vernda og vera þér trú; verðmætur er sá fjársjóður
sem felst í hjúskapar óskertri ást,
örlæti og umburðarlyndi.
Þú munt aldrei meir þurfa að þjást,
því mamma allt gera myndi.

Síðan áttu eitt skínandi ljós
sem ég get kallað albróður.
Yfir oss blessun Yeshúa jós,
já, gjafmildur var hann og góður.
Í heim okkar hefur verið send
ein skærasta sál allra tíma.
Þegar ég mót honum Hlyni stend,
hrífur mig þakklætisvíma.

Og enn er ónefnt eitt Engilbarn
sem í dag er vaxið úr grasi.
Það þungt í burtu bræddi hjarn
sem barstu yfir þínu fasi.
Sem kallað, það gæddi geðið
gleymdri gleði og baráttuhug.
Sinn dóm hefur Konungur kveðið
og kölska illsku vísað á bug.

Elsku pabbi, ég elska þig æ.
Um eilífð við verðum vinir.
Ég öllum mínum markmiðum næ;
þig má ekki særa, hvað hinir
segja í afskiptasemi.
Slæmt meina þeir ekkert með því,
þó þóknist þeim ei að ég nemi þjóðskáldsskólanum í.

Mikil mildi, pabbi, að þú skilur
að sonur þinn er á grænni grein.
Nú hvatningarorðin þú þylur,
en þrálát úrtöluorð ekki nein.
Braut skáldsins, sem þyrnum var stráð,
er sléttastur orðinn slóðinn.
Hagsæld íslenskrar listar því háð
er að haldi ég rígfast í móðinn.

Nú fagnar þú fæðingardegi,
en finnst það ei mikilsvert.
En fleiru þú fagnar. Ég segi:
Farsæll og heppinn þú ert.
Þú átt Guð Skapara alls sem vin;
Almóður, Alföður og Son.
Svo áttu hana Hrafnhildi og Hlyn
og hann Engil Bjart Einisson.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -