Föstudagur 22. nóvember, 2024
-1.6 C
Reykjavik

Portman neitar sambandi við Moby: „Ég man mun eldri mann sem var óviðeigandi við mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarmaðurinn Moby fullyrðir í nýútkominni bók að hann og Natalie Portman hafi átt í ástarsambandi þegar hún var tvítug. Portman hefur ítrekað neitað sambandi og lýsir stuttum samskiptum sínum við Moby sem óhugnalegum, óþægilegum og óviðeigandi. Hún minnist Moby sem eldri manns sem sýndi henni óviðeigandi hegðun. Portman var tæplega 18 ára þegar samskiptin áttu sér stað.

 

Í nýútkominni sjálfsævisögu Moby, Then It Fell Apart, segist hann hafa átt í sambandi við Portman. Þar heldur hann fram að Portman hafi daðrað við hann í búningsklefa. Hún hafi þá verið tvítug og hann rúmlega þrítugur. Portman var þó ekki orðin átján ára þegar samskiptin áttu sér stað.

Í bókinni fer Moby yfir fyrstu kynni þeirra Portman. „Ég var sköllóttur ofdrykkjumaður og Natalie Portman var falleg kvikmyndastjarna. En þarna var hún í búningsherberginu mínu, að reyna við mig. Ég var 33 ára og hún 20 ára en þetta var hennar heimur.” Moby fullyrðir að hann hafi reynt að vera kærastinn hennar en hún slitið sambandinu eftir að hafa kynnst öðrum manni. Hann segir slitin hafa verið honum léttir þar sem hann vildi ekki deila með henni kvíðavandamálum sínum.

Sjálfsævisaga Moby: Then It Fell Apart

Portman segir þau ekki hafa átt í sambandi. Í viðtali við Harpers Bazaar segir hún ekki muna eftir þessu svona. „Ég var hissa að hann lýsi þessum stutta tíma sem við þekktumst sem einhverju ástarsambandi. Ég man mun eldri mann sem var óviðeigandi við mig, unga stelpu nýútskrifaða úr menntaskóla.” Portman tekur fram í viðtalinu að Moby fari einnig rangt með aldursmuninn. Hún hafi verið tæplega 18 ára, enda fædd 1981 og Moby 1965. Það er sextán ára aldursmunur en ekki þrettán eins og Moby hefur haldið fram.

Reyndi að færa sannanir fyrir tilvist sambandsins á Instagram

Skjáskot af myndinni sem var síðar fjarlægð af Instagram

Moby svaraði Portman og setti inn mynd á Instagram af þeim tveimur. Á myndinni er hann ber að ofan og heldur utan um hana. Myndin er ekki lengur sjáanleg á Instagram síðu tónlistarmannsins.

- Auglýsing -

Bað Portman afsökunar

Moby deildi afsökunarbeiðni til Portman á Instagram. Þar segist hann hafa tekið gagnrýni á bókinni til sín. „Það var tillitslaust af mér að láta [Portman] ekki vita fyrirfram af tilvist hennar í bókinni. Það var jafn tillitslaust af mér að virða ekki hennar viðbrögð“ segir í færslunni. „Ég er fullur aðdáunar í garð Natalie. Hún er gáfuð, skapandi og berst fyrir réttindum dýra. Mér þykir leitt að hafa valdið bæði henni og fjölskyldu hennar vanlíðan.“ Moby segist einnig gera sér grein fyrir miklum aldursmuni. „Ég hefði átt að vera tillitsamur og ábyrgur þegar við Natalie hittumst fyrst fyrir tæpum 20 árum“.

Portman kynlífsvædd í myndinni Leon

- Auglýsing -
Portman í hlutverki sínu í myndinni Leon

Portman hélt ræðu í kvennagöngu Los Angeles í janúar 2018 þar sem hún vakti athygli á kynlífsvæðingu á ungum leikkonum. Þar talaði hún út frá eigin reynslu. „Útvarpsstöð í heimabænum mínum var með niðurtalningu í 18 ára afmælisdaginn minn. Það var dagurinn sem það yrði löglegt að sofa hjá mér.” Þá talaði hún einnig um fyrstu reynslu sína sem ung leikkona. Portman var einungis 12 ára gömul þegar hún átti stórleik í myndinni Leon. Luc Besson, leikstjóri myndarinnar, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að kynlífsvæða leikkonuna í myndinni. Eftir frumsýningu myndarinnar fékk Portman fyrsta aðdáendabréfið sitt, þá 13 ára. Bréfið innihélt lýsingar á draumórum karlmanns sem vildi nauðga henni.

Moby dæmigerður dáðadrengur með karlrembu

„Í ævisögu sinni setur Moby upp samskipti hans við Portman á þann hátt sem lætur hana, stelpu á unglingsaldri, virðast ögrandi,” skrifar Arwa Mahdawi í skoðanapistli á the Guardian. Pistlahöfundur segir málið lýsandi fyrir karlrembu dáðadrengs. „Það er ekkert óhugnalegt við hann. Moby er vegan, pólitískt framsækinn og hefur sakað aðra listamenn, meðal annars Eminem, um karlrembu” skrifar Mahdawi. „Mesta skömmin við þetta er að maður eins og Moby, sem tileinkar lífi sínu vitundarvakningu á veganisma, kemur fram við konur eins og þær séu kjötstykki.”

Mahdawi gagnrýni Instagram færslu Moby „Hann virðist í örvæntingu sinni vilja að heimurinn viti af sambandi sínu við menntaskólastelpu.” Mahdawi deildi pistlinum á Twitter. „Moby virðist ekki sjá neitt rangt við að 33 ára einstaklingur sé bendlaður við ungling. Það segir manni hvað kynlífsvæðing á ungum konum er stöðluð í samfélaginu”.

Natalie Portman, skírð Neta-Lee Hershlag, er ísraelsk-bandarísk leikkona. Hún hefur einnig starfað sem framleiðandi, höfundur og leikstýra. Portman hefur tekið á móti ótal verðlaunum fyrir leik sinn, meðal annars Óskarsverðlaunum og tveimur Golden Globe verðlaunum. Moby, sem heitir réttu nafni Melville Hall, er bandarískur tónlistarmaður. Hann er söngvari, lagahöfundur og framleiðandi sem hefur lengi talað fyrir veganisma og barist fyrir réttindum dýra. Moby hefur selt 20 milljón albúma yfir allan heim.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -