Sunnudagur 24. nóvember, 2024
-3.1 C
Reykjavik

Daðrað undir kertaljósi í sokkabuxum með saum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 2 tbl. Húsa og híbýla

Ljós er í augum margra sjálfsagður og jafnvel hversdagslegur hlutur enda tekur aðeins brot úr sekúndu að þrýsta á ljósrofa til að lýsa upp híbýli okkar. En þannig var það ekki fyrr en seint á 19. öldinni og það tók fjöldann allan af tilraunum og vísindamönnum að finna upp ljós með peru sem knúið var rafmagni, það er í raun meira en 100 ára löng saga og vel það. Sennilega hefur fátt haft eins mikil áhrif á líf okkar og einmitt þessi uppfinning enda þurfum við ljós við flest allt sem við gerum. Forfeður okkar notuðu opinn eld í hellinum til að sjá og snemma fóru menn að búa til einhvers konar lampa þótt frumstæðir væru. Víkingarnir notuðu til dæmis langeld og íslenska baðstofan var lýst upp með kertum og lýsislömpum. Einhverra hluta vegna náðu samt rafmagnsljósin aldrei að ryðja kertunum úr vegi og þau hafa sennilega sjaldan verið eins vinsæl og nú enda fást þau í alls konar litum og formum og sum ilma unaðslega. Kerti gefa frá sér afar fallega daufa birtu sem skapar notalegt andrúmsloft, kannski lætur hellisbúinn á sér kræla þegar við horfum á logana dansa ofan á kertunum. Eitt er víst að kerti eru tákn rómantíkur og sennilega hafa allir notað þau til að skapa stemningu með elskhuganum enda kertaljósabirta í senn hlýleg, dulúðleg og svo gerir hún einhvern veginn allt svo fallegt.

Ein og sér gefa kerti þó ekki alltaf næga birtu eins og kvöldið sem ég bauð karlmanni, sem ég var nýbyrjuð að hitta, í mat. Ég dúkaði fallega upp, kveikti á nokkrum kertum, setti Billie Holiday á fóninn og tók á móti honum klædd í ómótstæðilegan svartan þröngan blúndukjól, í sokkabuxum með saum, háum hælum og með hárið kæruleysislega slegið þannig að ég gæti sveiflað því til og frá, mér fannst ég mjög sexí. Í miðri máltíðinni stökk hann frá til að opna vínflösku og á meðan fálmaði ég, í daufri en mjög rómantískri birtunni, eftir snyrtibuddunni minni og skellti á mig varablýanti og varalit. Við héldum svo áfram að borða, daðra og spjalla en mér fannst svipurinn á kauða samt svolítið skrítinn en velti því
ekkert mikið fyrir mér enda á þriðja rauðvínsglasinu og kvöldið rétt að byrja. Ég fór svo á salernið skömmu síðar og sá mér til allrar óhamingju að ég hafði óvart notað svartan augnblýant í stað varablýantsins og leit því út eins og gleðikona í svarthvítu þöglu myndunum. Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta og gerði eiginlega hvoru tveggja. En skemmst er frá því að segja að við höfum verið gift í mörg ár og hann hefur aldrei minnst á þetta atvik.

Birta skiptir sköpum í öllum rýmum og hún getur verið alls konar; heit, köld, dauf, skær, björt, notaleg og falleg. Góð lýsing getur kallað fram sterk hughrif og haft áhrif á andlega líðan en hún getur líka skapað ákveðna stemningu og breytt áherslunum í umhverfinu. Birta hefur löngum verið tákn vonar og óumdeilt er að hún hefur áhrif á geðheilsu okkar, það fann ég vel um daginn þegar ég lagði örlítið seinna af stað í vinnuna og fölbleik ljóstýra gægðist upp á himininn í austri og ég fylltist einhverjum léttleika og gleði. Já, ljós og birta geta haft mikil áhrif á okkur. Hver veit nema kertaljósið hafi bjargað mér þarna um árið og hreinlega blindað elskhugann. Hann vill alla vega enn í dag hafa litla birtu og kertaljós þegar við borðum saman og ber við að hann vilji sjá mig í réttu ljósi.

Sjá einnig: Undurfagurt ljósablað Húsa og híbýla komið út

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Íslenskt fagtímarit um heimili og hönnun

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu 13 tölublöð á 1.538 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 2.430 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -