„Þegar ég kom hingað fyrst voru fjölskyldur í fjórum húsum. Við hjónin vorum til dæmis með þrjú börn. Þá var kennari á staðnum og því ekkert vandamál með kennslu fyrir börnin. Skólahaldið hér var útibú frá Grunnskólanum á Þingeyri. Þrátt fyrir að vera aflokuð hér á vetrum var alltaf nóg að gera og engum leiddist hérna“ segir Steinar R. Jónasson, stöðvarstjóri hjá Orkubúi Vestfjarða í Mjólkárvirkjun í Arnarfirði.
Bylting hefur orðið í samgöngum við virkjunina eftir að Dýrafjarðargöngin voru tekin í notkun. Svo er vegurinn suður um Dynjandisheiði mokaður í hverri viku, eitthvað sem enginn hefði látið sér til hugar koma fyrir fáum árum.
Steinar segir lítinn snjó á heiðinni og snjómælingar undanfarinna ára gefi fyrirheit um góðan vetrarveg á heiðinni þegar lokið verður við að leggja nýjan veg þar um í stað þess sem tekinn var í notkun 1959 og enn er ekinn.
„Veturinn núna er bara spaug og allt snjólaust, sem er ótrúlega þægilegt, ekki síst fyrir verktakana sem eru að vinna í nýja veginum. Vetur hér eru oftar en ekki afar harðir og erfiðir. Síðasti vetur byrjaði með hvelli 10. desember og stóð til vors og vel það,“ segir Steinar.
Hann lýsir því hvernig menn gátu verið í háska við að brjótast á milli húsa þegar óveður geysuðu.
„Það eru um 60 metrar frá íbúðarhúsunum að stöðvarhúsinu. Þessi leið hefur stundum vafist fyrir okkur í vetrarveðrum þegar ekkert sést og stormurinn eirir engu. Það hefur komið fyrir að við höfum hrakist undan veðri hér niður að‘ girðingu sem við höfum svo getað skriðið meðfram á leið okkar í stöðvarhúsið. Þá var hvasst.“
Síðustu ár hafa starfsmenn ekki verið með fjölskyldur sínar á staðnum heldur verið í skemmri úthöldum og skipst á viðveru í orkuverinu.
Ekki er lengur mögulegt að halda úti grunnskólakennslu í Mjólká þannig að starfið hefur verið gert fjölskylduvænna.
Starfsmenn fengu vörur og nauðsynjar oftast með bátum frá Bíldudal en einnig var fólk og varningur ferjað með snjóbíl yfir hina hrikalegu Hrafnseyrarheiði. Leiðin frá Mjólkárvirkjun og út með Arnarfirðinum að heiðinni er ekki alveg hættulaus á vetrum.
Snjóflóð eru þar tíð hlíðin erfið hvar hún er afar brött í sjó fram.
Stundum var hvorki hægt að komast á vélsleðum né snjóbíl
„Við fórum á vélsleðum á móti snjóbílnum. Þetta slapp ótrúlega vel, stundum komu flóð nærri okkur en það var bara einu sinni sem við lentum í flóði. Við vorum rétt komnir upp Manntapagilið og vorum stoppaðir hjá Gunnari Sigurðssyni sem var á snjóbílnum þegar fjallið fór allt af stað. það var flekahlaup sem mjakaðist af stað, Gunnar náði að snúa bílnum undan og keyrði fulla ferð með flóðinu. Það var sérkennileg upplifun en, eins og venjulega slapp þetta til. Stundum var hvorki hægt að komast á vélsleðum né snjóbíl, þá var ekkert annað í boði en að ganga yfir heiðina ef þörf var á að komast, það var stundum erfitt í vondum veðrum en nú er þetta allt úr sögunni. Nú er ekið innanhúss nánast beint frá virkjuninni og yfir í Dýrafjörð,“ segir Steinar og vísar til hinna nýju jarðgangna.