Svo kann að fara að sú Simpsons-þáttaröð sem nú er í sýningu vestanhafs verði sú síðasta. Þetta sagði Danny Elfman, sem samdi hið margfræga þemalag þáttanna. Elfman sagðist ekki hafa fengið þetta staðfest en að hann hefði heyrt að þetta stæði til.
„Ég er svo steinhissa og þykir ótrúlegt að þættirnir hafi enst jafnlengi og þeir hafa gert.. þú verður að gera þér grein fyrir því að þegar ég samdi tónlistina við Simpsons, þá samdi ég þessa klikkuðu tónlist og ég bjóst ekki við því að neinn myndi heyra hana af því að ég hélt ekki að þátturinn ætti séns í helvíti,“ sagði tónskáldið við hlaðvarpið joe.ie.
Simpsons eru hugarfóstur Matt Groening og er sá teiknimyndaþáttur sem hefur lengst verið í loftinu. Þættirnir hófu göngu sína sem atriði í Tracey Ullman Show árið 1987. Þáttafjöldinn stendur í um 670.
Ótal þekktir einstaklingar hafa komið fram í þáttunum sem gular fígúrur í heimi Homer, Marge, Bart, Lisa og Maggie Simpson. Þá var „d’oh“ fjölskylduföðursins tekið inn í Oxford-orðabókina árið 2001.
Vinsældir þáttanna hafa dalað nokkuð en þeir komust í fréttirnar fyrr á árinu þegar forsvarsmenn þeirra ákváðu að taka þáttinn þar sem Michael Jackson kemur fram úr sýningum.