Jón Ólafur Skarphéðinsson er látinn einungis 64 ára gamall. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi þann 11. febrúar eftir baráttu við illvígt krabbamein. Jón Ólafur starfaði sem prófessor í lífeðlisfræði og kenndi við flestar deildir heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Margir minnast hans í dag í Morgunblaðinu en útför hans fer fram síðdegis.
Jón Ólafur ólst upp í Hlíðunum og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Að loknu BS-próf í líffræði frá HÍ árið 1979 flutti hann út til Svíþjóðar. Þar hóf hann doktorsnám sem fjallaði um áhrif ósjálfráða taugakerfisins og ýmissa lyfja á stjórn blóðflæðis. Hann varði doktorsritgerð sína við Gautaborgarháskóla árið 1988 og var ráðinn lektor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands sama ár.
Í Morgunblaðinu segir að hann hafi verið mikill náttúruunnandi, hafi verið í sveit sem barn bæði fyrir norðan og sunnan. Jón Ólafur naut þess að fara í fluguveiði. Hann var félagi í Ármönnum – félagi um stangveiði og sat um tíma í stjórn þess. Jón Ólafur var mikill áhugamaður um tónlist en blúsinn var í uppáhaldi og var hann tíður gestur á Blúshátíð í Reykjavík.
Umgekkst mýsnar af væntumþykju
Torfi H. Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands, minnist fallins félaga í Morgunblaðinu. „Djúp rödd og karlmannleg. Hlý og mjúk. Hún hljómar í huganum þegar ég minnist vinar míns Jóns Ólafs Skarphéðinssonar. Jónsi var glæsilegur maður, hávaxinn og herðabreiður, nefmikill með falleg brún augu. Þau lýstu af greind og festu. Á góðum stundum geisluðu þau af gleði og kærleika. Við kynntumst á síðasta ári okkar í menntaskóla. Við Þór bróðir vorum þá svo lánsamir að tengjast hópi félaga sem höfðu orðið samferða í gegnum skólakerfið og hnýtt sterk vinabönd sín á milli. Sjálfir höfðum við alist upp í mörgum löndum og höfðum því ekki sömu rótfestu,“ segir Torfi sem átti eftir að leigja saman með Jóni Ólafi síðar meir.
„Eftir árshlé þar sem ég dvaldi erlendis leigðum við Jónsi aftur saman, nú með Þór bróður, Jóhönnu Þórhalls vinkonu, Völundi Óskars og Guðbjörgu, eiginkonu minni. Þá var Jónsi útskrifaður, farinn að vinna við rannsóknir og kenna við háskólann. Hann var þegar orðinn metnaðarfullur vísindamaður, ekki nema tuttugu og þriggja ára. Við hin vorum að fást við ólíka hluti, en nutum þess að hlusta á Jónsa segja frá rannsóknunum sem hann tók þátt í, meðal annars á margvíslegum undrum sléttra vöðva. Einhvern tímann þennan vetur tók hann heim með sér af tilraunastofunni tvær hvítar mýs sem urðu þar með hluti af heimilisfólkinu. Hann hafði gaman af þessum dýrum og það var eftirminnilegt hvað hann umgekkst þau af mikilli virðingu og væntumþykju.“
Bauð svo meira kaffi
Gunnar Oddur Rósarsson rifjar upp hvernig Jón Ólafur tókst á við veikindi sín af miklu æðruleysi. „„Það að vera lifandi, er í sjálfu sér banvænt,“ sagðirðu í framhjáhlaupi í Vatnsdalnum í fyrra. Þar gafstu í skyn að þig grunaði að eitthvað væri að heilsu þinni sem gæti skipt sköpum. U.þ.b. 8 mánuðum síðar, um mánuði fyrir andlát þitt, talaðirðu undir rós við okkur Gilla, þegar þú sættir annarri geislameðferð, keikur. Sagðir u.þ.b. þetta: „Næsta skref er sennilega líknardeildin.“ Enginn sagði neitt fyrr en þú sagðir: „Hva, það fara allir, þið líka! Þið vitið bara ekki alveg hvenær, enn þá.“ Svo bauðstu meira kaffi,“ skrifar Gunnar Odddur.
Gæfa hjúkrunarfræðinga
Herdís Sveinsdóttir, deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar HÍ, minnist einnig Jóns Ólafs en hún segir það hafa verið gæfu fyrir íslenska hjúkrunarfræðinga að njóta kennslu hans. „Við Jón Ólafur vorum samstúdentar frá MH. Ég þekkti hann ekki mikið á menntaskólaárunum en við vorum málkunnug. Það breyttist því við réðum okkur bæði um svipað leyti til starfa við Hjúkrunarfræðideild HÍ og áttum þar farsælt samstarf í rúm 30 ár. Jón Ólafur var stór og glæsilegur maður með sterka nærveru og sterkar skoðanir. Rannsóknarsvið hans var lífeðlisfræði og lutu flestar rannsóknir hans að áhrifum ósjálfráða taugakerfisins á starfsemi hjarta og æða og stjórn blóðþrýstings, blóðflæðis og blóðþurrðar og margvíslegra áhrifa lyfja á þessa þætti. Rannsóknir sínar stundaði hann með samstarfsfólki hjá Lífeðlisfræðistofnun HÍ. Samstarf okkar sneri hins vegar að mestu að lífeðlisfræðikennslu hjúkrunarfræðinema. Hann hafði mikinn metnað fyrir menntun hjúkrunarfræðinga og það var gæfa hjúkrunarfræðideildar að fá hann til starfa,“ segir Herdís.
Hún segir það hafa verið mikið áfall þegar hann missti son sinn Jón Börk í flugslysi. „Jón Ólafur og kona hans Hólmfríður urðu fyrir því skelfilega áfalli að missa son sinn Jón Börk árið 2001 í kjölfar flugslyss í Skerjafirði. Við í hjúkrunarfræðideildinni fylgdumst náið með framvindu Jóns Barkar það tæpa ár sem hann lifði eftir slysið en Jón Ólafur ræddi við okkur reglulega um líðan sonar síns, aðbúnað hans, hjúkrun sem hann fékk og eigin líðan. Hann fékk þarna meiri reynslu af þjónustu heilbrigðiskerfisins og hjúkrunarfræðinga en flestir á hans aldri höfðu og nýtti þá reynslu í kennslu og við almenn stjórnunarstörf í deildinni til að byggja upp færa einstaklinga til starfa við hjúkrun sjúklinga,“ segir Herdís og bætir við að lokum:
„Blessuð sé minning góðs manns.“