Veitustofnanir, rafmagn, kalt og heitt vatn, sími og fleira eiga að vera í eigu ríkissjóðs, sveitarfélaga eða lífeyrissjóða. Í höndum einkaaðila geta þeir hesthúsað mikinn gróða með smávægilegum verðbreytingum. Nú þegar kaupa Íslendingar orku og neysluvatn af fjárfestum í einkasöluaðstöðu. Ef illa fer, þarf ríkið alltaf að hlaupa undir bagga og nýta til þess skattpeninga. Þetta er ein ástæða þess að ríkið mun alltaf þurfa að vera bakhjarl banka, beint ef illa fer og óbeint með löggjöf og eftirliti til að stuðla að því að svo fari ekki.
Þetta segir Ragnar Önundarson, fyrrverandi bankastjóri, sem þekkir vel til í íslensku fjármálakerfi. Ragnar setur þetta í samhengi við fyrirhugaða og umdeilda sölu Íslandsbanka. Ragnar biður fólk um að vera ekki auðtrúa né hlusta á fagurgala um frjálsa samkeppni.
„,,Fjárfestar” vilja ekkert fremur en fá að hafa ,,annarra manna fé” umleikis. Verum ekki auðtrúa og hrekklaus, efumst þegar við heyrum fagurgalann um ,,frjálsa samkeppni og markaði, frjálst framtak og samningsfrelsi” o.s.frv. Mannseðlið, með sinni hömlulausu græðgi, hefur ekkert breyst síðan 2007,“ segir Ragnar og bætir við:
„Á Íslandi eru þrír bankar allsráðandi, Kvika er svo lítill banki að hann nær ekki að veita umtalsverða samkeppni og starfar þannig í skjóli fákeppninnar. Risarnir þrír mynda því fákeppnismarkaðinn. Arion er í eigu erlendra vogunarsjóða, sem eru þróaðasta form græðginnar í veröldinni.“
Fjárfestar vilja alltaf fákeppni og helst komast í einokunarstöðu, það sé þeirra paradís, að mati Ragnars.
„Ef Íslandsbanki verður seldur munu vextir og gjaldskrá Arion banka verða viðmiðun hans í fákeppninni,“ segir Ragnar og bætir við:
„Eftir að Íslandsbanki hefur verið færður einkaaðilum ,,á silfurfati” munu innlendir ,,fjárfestar” slást í lið með erlendu vogunarsjóðunum og fleyta rjómann ofan af. Silfurskeiðar fara vel við silfurföt, óneitanlega.“