Miðvikudagur 15. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Beita byggingarreglugerðum og vísindaskáldskap

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hart er sótt að „réttinum til að velja“ í Bandaríkjunum en andstæðingar meðgöngurofs eru þó ekki sammála um hvaða aðferðir séu vænlegastar til árangurs. Repúblikanar í Ohio hafa lagt fram frumvarp sem bannar ekki bara fóstureyðingar heldur skyldar lækna til að framkvæma aðgerð sem er bæði lífshættuleg og ómöguleg.

 

Andstæðingar meðgöngurofs vestanhafs berjast nú með öllum ráðum fyrir því að fá úrræðið bannað sem víðast en þrátt fyrir harða baráttu síðustu ár er það enn löglegt í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Þó hefur tekist að þrengja verulega að aðgengi kvenna að meðgöngurofi með beinum og óbeinum hætti en æðsta markmiðið er að fá Hæstarétt til að endurskoða afstöðu sína frá því að dómur féll í máli Roe gegn Wade árið 1973. Þeir hópar sem hafa helgað sig stríðinu gegn „frelsinu til að velja“ eygja nú möguleika á að ná þessu takmarki, í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti skipaði Brett Kavanaugh dómara við réttinn í stað Anthony Kennedy. Þeir eru þó ekki sammála um aðferðir; sumir telja vænlegast að vinna stríðið með mörgum litlum skærum, á meðan aðrir hafa gripið til þungavopna og freistað þess að koma á allsherjarbanni og hörðum viðurlögum.

Skærurnar hafa meðal annars falist í því að grafa undan þjónustu þeirra sem framkvæma meðgöngurof, með því til dæmis að breyta byggingarreglugerðum þannig að fjársveltar stofurnar hafa engin ráð til að uppfylla þær. Þá hefur löggjafinn í mörgum ríkjum freistað þess að takmarka réttinn til meðgöngurofs niður í allt að sex vikur en á þeim tíma meðgöngunnar er allt eins víst að konan sé algjörlega grunlaus um að hún sé þunguð. Nýlegt frumvarp í Ohio er dæmi um stórtækari aðgerðir en þar hafa 19 af 90 þingmönnum neðri deildar ríkisþingsins lagt fram tillögu þess efnis að frjóvgað egg verði skilgreint sem „ófætt barn“, að meðgöngurof verði gert ólöglegt og að þeir sem framkvæma eða gangast undir úrræðið verði sóttir til saka fyrir morð. Refsingin verði lífstíðarfangelsi og mögulega dauðrefsing.

Læknar krafðir um hið ómögulega

Þetta kann að virðast öfgafullt en þó er ónefnt það ákvæði sem mesta athygli hefur vakið; að þegar um er að ræða utanlegsfóstur sé læknum skylt að freista þess að „bjarga“ fóstrinu með því að fjarlægja það, í flestum tilvikum úr eggjaleiðara konunnar, og koma því fyrir í leginu. Læknar hafa bent á að utanlegsþungun sé ekki einungis stórhættuleg konum, heldur sé sú aðgerð sem frumvarpið kveður á um hreinlega ekki til í læknavísindunum. „Ég trúi ekki að ég sé að skrifa þetta aftur en þetta er ómögulegt,“ tísti fæðinga- og kvensjúkdómalæknirinn David Hackney um hugmyndina. „Við verðum öll send í fangelsi.“ Ástæða þess að Hackney segir „aftur“ er að þetta er í annað sinn sem löggjafinn í Ohio gerist sekur um umræddan vísindaskáldskap en fyrr á árinu freistuðu andstæðingar meðgöngurofs á þinginu þess að greiða fyrir aðgerðinni ómögulegu með því að fella hana undir almannatryggingar.

„Það er kominn tími til að útrýma alfarið meðgöngurofi og viðurkenna að hver einstaklingur eigi óskoraðan rétt til lífs“

Samkvæmt New York Times er allt eins líklegt að baráttan um réttinn til meðgöngurofs muni harðna á árinu 2020 en frumvörp þar að lútandi verða tekin til umræðu í Ohio, Suður-Karólínu, Tennessee, Nebraska og Idaho strax í byrjun árs. Í þessum ríkjum njóta repúblikanar þingmeirihluta. Þá má gera ráð fyrir að málið verði notað óspart í fjáröflun fyrir forsetakosningarnar, sem fara fram í nóvember. „Tíminn til að ná böndum yfir hið illa með reglugerðum og málamiðlunum er liðinn,“ er haft eftir Candice Keller, þingmanni í Ohio. „Það er kominn tími til að útrýma alfarið meðgöngurofi og viðurkenna að hver einstaklingur eigi óskoraðan rétt til lífs.“ James Bopp, lögmaður National Right to Life, vill hins vegar taka slaginn í skrefum. Hann sagði ofstækisfullar löggjafartilraunir hafa gert andstæðinga meðgöngurofs að fíflum og að þær væru ekki líklegar til þess að rata til Hæstaréttar og ná tilætluðu markmiði.

- Auglýsing -

Ítarlega er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -