Bresk táningsstúlka sem var dæmd fyrir að hafa logið um nauðgun kann að þurfa að bíða í þrjú ár eftir að fá endanlega niðurstöðu í málinu. Stúlkan, sem sagði að sér hefði verið nauðgað af þremur ísraelskum mönnum á Kýpur, var fundinn sek um að hafa skáldað atvikið.
Lögmenn stúlkunnar segja hana hafa verið beitta harðræði af lögreglu þar til hún dró ásakanir sínar til baka. Kýpverska dómskerfið og dómarinn í málinu hafa sætt harðri gagnrýni vegna málsins.
Stúlkan, sem er 19 ára en hefur ekki verið nafngreind, sagði að sér hefði verið nauðgað af þremur ísraelskum ferðamönnum í Ayia Napa í júlí sl. Hún dró framburð sinn til baka tíu dögum seinna en samkvæmt lögmönnum stúlkunnar var henni haldið í átta tíma undir harðri yfirheyrslu án lögmanns, áður en hún gaf sig. Þá var henni tjáð að hún fengi ekki að sjá móður sína fyrir en fyrir dómi.
Sérfrótt vitni sagði áverka stúlkunnar passa við frásögn hennar.
Kallað hefur verið eftir því að stúlkan verði náðuð en lögmenn hennar segja það ekki munu duga til þess að hreinsa mannorð hennar. Hún hyggur á háskólanám og þeir segja að dómurinn muni valda henni vandræðum í námi og starfi.
Kveðið verður á um refsingu í næstu viku en þá munu lögmenn stúlkunnar hafa 10 daga til að áfrýja. Þeir munu freista þess að fá málið tekið aftur fyrir innan sex mánaða en munu að öðrum kosti leita til Mannréttindadómstóls Evrópu. Málsmeðferðin þar getur tekið þrjú ár.
Utanríkisráðherra Bretlands hefur lýst yfir áhyggjum vegna málsins og er nú ýtt á hann um að hafa samband við stjórnvöld í Kýpur og fá þau til að beita sér fyrir því að hraða málinu.