Reiði er á Ísafirði vegna uppsagnar þriggja starfsmanna Áhaldahúss bæjarins.Upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar staðfesti við Bæjarins besta á Ísafirði að þremur starfsmönnum þjónustumiðstöðvar hefði verið sagt upp störfum.
„Ástæða þessara breytinga í mannahaldi er að snjómokstur í Skutulsfirði er ekki lengur á höndum starfsmanna þjónustumiðstöðvar eftir að gengið var til samninga við verktaka um snjómokstur í byrjun þessa árs.“ hefur bb.is eftir upplýsingafulltrúanum.
Eitthvað er það málum blandið að uppsagnir starfsamannanna snúist um snjómokstur. Guðni G. Borgarsson, starfsmaður þjónustumiðstöðvar, skrifar athugasemd við fréttina.
„Æ þessir snillingar í Marmarahöllinni. Þetta rugl i þeim er löngu hætt að vera fyndið,“ skrifar hann og vísar væntanlega til yfirstjórnar Ísafjarðarbæjar.
Baldur Smári Ólafsson spurði hvort þeim sem var sagt upp hafi allir verið snjómokstursmenn. Guðni svaraði því til að að einungis einn hefði verið í snjómokstri.