Stefán Árnason, sem lést eftir að ekið var á hann á gatnamótum Kauptúns og Urriðaholtsstrætis í Garðabæ 17. febrúar síðastliðinn, verður jarðsunginn í dag. Hann var 76 að aldri og lætur eftir sig þrjú börn.
Stefán fæddist í Reykjavík 29. mars árið 1944. Hann ólst upp á Njálsgötunni í höfuðborginni og lauk kennaraprófi hérlendis. Þá stundaði Stefán einnig kennaranám í Danmörku þar sem hann var um skeið búsettur með fjölskylduna. Óhætt er að segja að starfsferill hans hafi verið helgaður kennslu og samdi meðal annars kennslubækur í starfsfræði fyrir grunnskóla.
Stefáns er minnst í minningargreinum Morgunblaðisins í dag þar sem fram kemur að hann hafi verið hlýr fjölskyldufaðir og vinur. Þar segir að hann hafi alla tíð verið mikill Garðbæingur þar sem hann bjó bróðurpartinn af lífi sínu. Hann var í stjórn sunddeildar Stjörnunnar og varaformaður Stjörnunnar. Stefán tefldi mikið og var í skákklúbbi. Hann hafði bæði ánægju af ferðalögum innanlands sem og erlendis. Einnig var hann göngugarpur og stundaði sund.
Bryndís syrgir föður sinn í minningagrein og fer um hann hlýjum orðum. „Elsku besti pabbi. Skyndilegt fráfall þitt er okkur fjölskyldunni mikið reiðarslag. Það er svo sárt að kveðja þig en eftir standa margar góðar minningar. Pabbi var mikill fjölskyldumaður og unni hann fjölskyldu sinni afar heitt og vildi hag hennar sem bestan. Pabbi var afar góður kennari og
vel metinn af mörgum nemendum. Pabbi hafði mikinn áhuga á öllu sem hans nánustu tóku sér fyrir hendur og alltaf var hægt að leita ráða hjá honum, segir Bryndís og bætir við:
„Elsku pabbi, þakklæti er mér efst í huga. Þakklæti fyrir að hafa átt yndislegan föður, sem var alltaf til staðar fyrir mig. Pabbi, þú átt svo stóran hlut af hjarta mínu og ég sakna þín svo mikið.“
Ingvar Sigurgeirsson kennari minnist góðs vinar í færslu á Facebook í dag. Þeir voru saman í skákklúbbi sem hittist hálfsmánaðarlega. „Í dag kveð ég kæran vin, Stefán Árnason. Síðustu ár hafa verið höggvin skörð í þennan góða hóp. Fráfall Stefáns er enn eitt reiðarslagið, ekki síst vegna þess hversu brátt það bar að. Síðustu ár hefur Stefán, þessi sterki og um margt sérstaki maður, í bestu merkingu þeirra orða, verið nokkurs konar foringi okkar. Hann hefur öðrum fremur haldið hópnum saman í gegnum tíðina og rækt það hlutverk af alúð og alvöru. Þá var hann oft í essinu sínu með sinni hljómmiklu rödd og leiftrandi frásagnargáfu. Stefáni fannst ekki verra að hafa orðið, sagði þá skoðanir sínar umbúðalaust, nákvæmur, hreinn og beinn, alltaf sjálfum sér samkvæmur, fundvís á skemmtileg og stundum óvenjuleg sjónarhorn, minnugur og vel lesinn,“ segir Ingvar og heldur áfram:
„Kannski er eftirminnilegast þegar hann vék í samræðum okkar að fjölskyldu sinni. Hann leyndi því aldrei hversu kær hún var honum. Stefán var traustur vinur sem aldrei brást. Lofsamlegustu ummæli um fólk í fornum sögum okkar Íslendinga eru: Hann var drengur góður. Um fáa eiga þau betur við en Stefán. Það verða þung spor að kveðja þennan góða dreng.“