Rúna Magnúsdóttir er kona sem fer út fyrir þægindarammann og lætur boxin sem samfélagið setur fólk í ekki stöðva sig í að ná markmiðum sínum og árangri. Hún er menntaður markþjálfi og hefur rannsakað og þróað það sem hún nefnir Út-Úr-Boxinu-markþjálfunaraðferðafræðin ásamt erlendum samstarfsmanni sínum, Nick Haines, og saman hafa þau skrifað bók á ensku um fyrirbærið.
„Upphaf vitundarvakningarinnar má rekja til þátttöku okkar Nick Haines á ráðstefnunni „Impact Leadership Global Summit“ sem var haldin í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York árið 2018. Í pallborði, þar sem Nick var einn ræðumanna, var hann spurður: „Hvers vegna erum við ekki búin að ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í jafnrétti kynjanna, friði og sjálfbærni.“ Og Nick svaraði: „Vegna þess að við setjum fólk í box og ef við höldum áfram að setja fólk í box, þá breytist ekkert og það sem verra er, við ætlumst til að fólk lifi og hagi sér eins og þessi box.“
Þetta svar kveikti á ákveðinni Matrix-sýn hjá sjálfri mér. Ég sá sterkt hvernig boxin höfðu haft lamandi áhrif á mitt eigið líf, hvernig ég hafði komið fram við aðra og sjálfa mig út frá boxunum. Í leigubíl með Nick út á JFK-flugvöll síðar þennan dag héldum við áfram að tala um boxin, hvernig þau væru undirstaða svo mikils misréttis og ójafnvægis í heiminum. Hvernig þau væru undirstaða þrælahalds, útrýmingarbúða, kynjamisréttis og þar fram eftir götunum. Við ákváðum, þarna inni í leigubílnum, að nú væri komið nóg. Við ætluðum að taka hugrekkispilluna og gera eitthvað sjálf í málunum. Þannig varð Út-úr-boxinu vitundarvakningin til.“
Lestu viðtalið við Rúnu í heild sinni í Vikunni sem fæst á öllum betri sölustöðum og í áskrift.